Samtökin S.Á.Á. hefur samið um að Nýherji annist hýsingu og rekstur tölvukerfa samtakanna. Þá var sömuleiðis samið um kaup á tölvum undir merkjum Lenovo fyrir starfsemi S.Á.Á.

Fram kemur í tilkynningu að samkvæmt samningi mun Nýherji annast hýsingu allra miðlægra gagna, hýsingu á kerfum, netlausnir og veitir alla almenna sérfræðiþjónustu til starfsmanna. S.Á.Á hefur á liðnum árum unnið náið með sérfræðingum Nýherja í upplýsingatækni og tengdum lausnum fyrir samtökin, svo sem í prentþjónustu og rekstur á símkerfi.

„Með útvistun tölvukerfa er hægt að auka öryggi og tryggja aðgengi að sérfræðiþjónustu, en Nýherji leggur mikla áherslu á að veita framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina. Þá skapar útvistun fjárhagslegan ávinning því viðskiptavinir þurfa einungis að greiða fastan og fyrirsjáanlegan kostnað," segir Þorvaldur Þorláksson deildarstjóri Lausnasviðs Nýherja, í tilkynningunni.