Netverslanir S4S; Skór.is, Ellingsen.is, Air.is og Rafhjólasetur.is, hafa bæst í hóp þeirra fyrirtækja sem nýta sér þjónustu Dropp, sem afhendir vörur fyrir netverslanir. Geta viðskiptavinir þeirra nú sótt pakkana sína á afhendingarstaði Dropp, sem eru flestir staðsettir á þjónustustöðvum N1, en einnig hjá World Class í Kringlunni og í Háskólanum í Reykjavík. Þá mun Dropp einnig sjá um allar heimsendingar netverslananna á stór-höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Dropp byrjaði að afhenda vörur fyrir netverslanir árið 2019 og má segja að félagið hafi fest sig í sessi á stuttum tíma en yfir 100 íslenskar verslanir á borð við Elko, Nespresso, NOVA, Símann, Vodafone og Origo bjóða nú þegar upp á afhendingar með Dropp.

„Netverslanir S4S hafa stækkað mikið á síðustu mánuðum og við erum í stanslausri þróun með vefina okkar ásamt því að vinna í nýjum ferlum og lausnum til að veita enn betri þjónustu til viðskiptavina okkar. Við höfum stækkað netverslunina, erum að vinna í nýjum heimasíðum og ætlum okkur að opna alveg nýja tegund af verslun í lok sumars, sem er blanda af hefðbundinni verslun og netverslun. Þá erum við að vinna við að gera þjónustuupplifun viðskiptavina okkar sem allra besta og þróa kerfi sem á ekki sína líka hér á landi, þar sem viðskiptavinir eru settir í fyrsta sæti í öllum okkar ákvörðunum,“ segir Pétur Þór Halldórsson, forstjóri S4S.

Ásdís Jörundsdóttir, rekstrarstjóri netverslana S4S, segir fyrirtækið spennt fyrir samstarfinu við Dropp, og tekur fram að það auki möguleika viðskiptavina sinna til að velja leiðir til að fá vörurnar afhentar, auk þessa að flýta fyrir ferlinu frá pöntun til afhendingar. „Við höfum séð að þarfir viðskiptavina hafa breyst, fólk vill ekki lengur fá pakkana heim til sín á kvöldin, heldur frekar fá að sækja þá á leiðinni heim frá vinnu. Þeir vilja fá samdægursþjónustu og ætlast til þess að það sé möguleiki. Netverslanir okkar eru með þeim stærstu á landinu og lagerar á mörgum stöðum en með þeirri vinnu sem við erum búin að vera í höfum við einfaldað ferla og fundið lausnir til að geta boðið upp á þess konar þjónustu.“

Bílafloti Dropp rafvæddur

Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Dropp, segir samstarfið sýna að netverslanir átti sig nú á því að afhendingar séu mikilvægur hluti af upplifun viðskiptavina þegar þeir versla á netinu og að hraði skiptir þá máli. „Þegar þú verslar á netinu þá er ferlið ekki búið fyrr en pakkinn er kominn til skila, við erum að hjálpa netverslunum að gera þetta ferli eins einfalt og þægilegt eins og hægt er og viðskiptavinir netverslana hafa verið gríðarlega ánægðir með þjónustuna. Það er ávallt stutt í næsta Dropp stað og í leiðinni fyrir alla. Það er mjög ánægjulegt að fá netverslanir S4S í viðskipti við okkur og við hlökkum til komandi tíma."

Hrólfur tekur fram að Dropp sé byrjað þá vegferð að rafbílavæða bílaflota sinn, auk þess sem stefnan sé sett á að kolefnisjafna þær flutningsleiðir sem ekki er hægt að rafvæða. „Við höfum nú þegar pantað 3 rafsendibíla sem verða í akstri á höfuðborgarsvæðinu og við hlökkum til að fá þá afhenta í maí.“