Vilhjálmur Egilsson hefur starfað hjá Samtökum atvinnulífsins (SA) frá árinu 2006 en hann mun sem kunnugt er taka við starfi rektors við Háskólann á Bifröst í sumar. Spurður um aðdragandann að nýju starfi sem og starfslokum hans hjá SA segir Vilhjálmur það vera samblöndu af tilviljunum.

„Þegar ég kom til starfa árið 2006 þá velti maður því fyrir sér hvað maður ætti að vera lengi yfirleitt,“ segir Vilhjálmur. „Ég sá ekki fyrir mér að vera þarna í 15-20 ár. Síðan verða ákveðnar breytingar hjá SA, það kemur nýr formaður, og á sama tíma heyri ég af því að Bryndís [Hlöðversdóttir] ætli sér að hætta sem rektor á Bifröst. Ég leit á þetta sem ákveðið tækifæri fyrir mig til að breyta um vettvang og þegar við Björgólfur Jóhannsson, nýkjörinn formaður, ræddum málin urðum við sammála um að ég sækti um starf rektors.“

Varstu farinn að finna fyrir þreytu í þessu starfi?

„Nei, alls ekki. En ég er búinn að vera þarna í sjö ár og það er ágætis tími,“ segir Vilhjálmur.

Lesa má ítarlegt viðtal við Vilhjálm Egilsson í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð.