Samtök atvinnulífsins hafa viljað draga mörkin við 2% launahækkun og eru rökin þau að þjóðhagslega sé ekki raunhæft að fara hærra því það auki meðal annars líkurnar á að því að verðbólgan fari af stað.

Benda samtökin á kjarasamninga sem gerðir hafa verið á Norðurlöndunum í þessu samhengi en Finnar sömdu síðast um 0,5% launahækkun á ári, í Danmörku hljóðuðu samningarnir upp á um 1% hækkun og í Svíþjóð hljóðuðu hæstu samningarnir upp á 2% hækkun.

ASÍ hefur ekki gefið upp sínar launakröfur en þær eru alveg örugglega töluvert hærri en 2%. Í tengslum við taxtahækkanir launa benda forsvarsmenn ASÍ á þá staðreynd að hér hafi orðið launaskrið á almennum markaði.

Samtök atvinnulífsins munu ekki vera til tals um 3,25 til 4.25% launahækkun en það er prósentuhækkunin sem samið var um í síðustu stóru kjarasamningum vorið 2011. Forsvarsmenn samtakanna telja lægri prósentuhækkanir líklegri til að auka kaupmátt en háar.

Í samningnum 2011 var samið um 50 þúsund króna eingreiðslu. Hún kom til vegna þess að fyrri samningur var löngu útrunninn þegar nýr var gerður. Samtök atvinnulífsins munu vera mjög mótfallinn eingreiðslum þar sem þau telja að þær komi fyrirtækjum einkar illa.

Í kjölfar samninganna 2011 var skipuð forsendunefnd sem hafði það hlutverk að fara yfir fyrir fram ákveðnar forsendur kjarasamningsins. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur ekki komið til tals að skipa slíka nefnd núna. Það hefur reyndar ekkert verið rætt í tengslum við skammtímasamninginn en gæti komið til tals í viðræðum um næsta samning. Sá samningur sem aðilar vinnumarkaðarins vinna að núna er sem sagt skammtímasamningur sem mun gilda í eitt ár. Þetta er aðfarasamningur að stærri samningi sem verður þá væntanlega undirritaður fyrir áramótin 2014.

Í Viðskiptablaðinu, sem kom út þann 5. desember síðastliðinn, er úttekt á kjaraviðræðunum.