Samtök atvinnulífsins (SA) telja engar sýnilegar forsendur fyrir meiri launahækkunum hinn 1. febrúar 2013 en þegar hefur verið samið um í kjarasamningum.

Þetta kemur fram á vef SA í dag þar sem fjallað er um verðbólguvæntingar og vinnumarkaðinn.

Þar segir að samkvæmt kjarasamningunum sé sérstakt opnunarákvæði í janúarlok en til þess að virkja það þurfa forsendur að hafa brostið. Meginforsendan er að kaupmáttur hafi aukist á þessu ári miðað við launavísitölu, en ennfremur er miðað við að markmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu standist, að gengisvísitala krónunnar sé komin í 190 og að ríkisstjórnin hafi staðið við yfirlýsingu sína í tengslum við samningana.

„Yfirgnæfandi líkur eru til þess að kaupmáttarforsenda kjarasamninganna standist enda hafa laun hækkað töluvert umfram verðlag á árinu,“ segir á vef SA.

„Verðbólgan verður væntanlega á niðurleið þótt markmið Seðlabankans náist ekki. Gengi krónunnar sem hefur farið hækkandi að undanförnu mun væntanlega ekki lækka skarpt aftur á næstu mánuðum. Lítinn tilgang hefur að spá í hvað ríkisstjórnin á eftir óefnt þegar komið er fram á næsta ár. Hvernig sem á málin er litið er ljóst að engin vandamál á vinnumarkaði eða sviði efnahagsmála verða leyst með frekari launahækkunum 1. febrúar en þegar hefur verið samið um.“

Sjá nánar á vef SA.