Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að það frumkvæði borgarráðs að fella úr gildi gjaldskrárhækkanir Reykjavíkurborgar sé stórt framlag til komandi kjarasamninga og mikilvægt fordæmi fyrir önnur sveitarfélög.

„Næsta skref í þessu ferli er að ríkisstjórnin endurskoði áform um gjaldahækkanir í fjárlagafrumvarpi og um hækkanir ríkisstofnana á gjaldskrám sínum. Þá þarf að skapa uppbyggilega umgjörð um samskipti aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera um viðfangsefni sem tengjast kjarasamningum. Forsenda árangurs er víðtæk samstaða á vinnumarkaði um markmið og leiðir og í framhaldinu að atvinnulífið, einkum verslunar- og þjónustufyrirtæki, stilli verðákvarðanir sínar af miðað við lægri verðbólguvæntingar. Framlag Reykjavíkurborgar er mikilvægur liður í ferlinu framundan við sköpun víðtækrar samstöðu,“ segir Þorsteinn á vef Samtaka atvinnulífsins.

Þá segir Þorsteinn að Samtök atvinnulífsins fagni framlagningu tillagna hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. „Tillögurnar í heild eru víðtæk áætlun um hagræðingu í ríkisrekstri og eru í raun dagskrá eða efnisyfirlit yfir vinnu að því marki á kjörtímabilinu því það mun taka tíma að hrinda þeim í framkvæmd. Ákvörðun forsætisráðherra um að fela formanni hagræðingarhópsins framkvæmd verkefnisins eykur líkur á því að árangur náist,“ segir Þorsteinn.