Samtök atvinnulífsins segja jákvætt að Seðlabankinn staldri við í bili með því að hækka ekki stýrivexti. Hækkandi vextir samhliða lágri verðbólgu hafi aukið aðhald peningastefnunnar, sem nú sé orðið umtalsvert. Raunvaxtastigið sé langt umfram það sem gengur og gerist í viðskiptalöndum okkar.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 5,5% en að hækka bindiskyldu úr 2% í 4%. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði hækkun bindiskyldunnar vera varúðarráðstöfun í tengslum við uppboð á aflandskrónum og uppgjör slitabúa föllnu bankanna, en jafnframt viðbrögð við innflæði gjaldeyris.

Í frétt á vefsíðu SA segir að samtökin fagni þeirri ákvörðun Seðlabankans að beita bindiskyldu til að efla lausafjárstýringu. Þó sé vert að velta því fyrir sér hvers vegna fleiri aðferðum hafi ekki verið beitt til að bregðast við innflæði gjaldeyris til Íslands. Bent er á að þörf lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis hafi safnast upp undanfarin ár. Eðlilegt sé að spyrja sig hvers vegna ekki hafi verið opnað á erlenda fjárfestingu innlendra aðila til að mæta því innflæði gjaldeyris sem verið hefur.