Einhugur var í nefnd Samtaka Atvinnulífsins um að græða ætti götu þess að viðskipti og notkun eða tenging við gjaldmiðla gæti þróast óhindrað á þann hátt sem markaðsaðilar telja hagkvæmast hverju sinni. Fjölmyntavæðingin verði knúin áfram af eftirspurn eða þörfum atvinnulífsins og heimilanna.

Hægt hefur þó á fjölmyntavæðingunni í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar sem nú gengur yfir vegna takmarkaðs aðgangs að erlendum gjaldmiðlum.

Flestir þeirra 17 fulltrúa frá aðildarfyrirtækjum SA, sem skipuðu nefndina, töldu einhliða upptöku ekki koma til greina og að valið stæði um upptöku evru í gegnum aðild að Evrópusambandinu eða áframhaldandi notkun krónunnar með grundvallar endurskoðun á meginþáttum hagstjórnarinnar.

Segir í niðurstöðum nefndarinnar að nokkur áhugi sé meðal launafólks og fyrirtækja á því að taka upp launagreiðslur að hluta í erlendum gjaldmiðli. Sú leið virðist þó ekki á næsta leiti að kjarasamningar verði gerðir í öðrum gjaldmiðli en krónu.