Guðmundur Sturluson, bóndi á Þúfnavöllum í Hörgárdal, kom upplýsingum til Landhelgisgæslunnar sem urðu til þess að flugvél Arngríms Jóhannssonar, sem brotlenti í gær, fannst í Barkárdal kl. 20:30 í gærkvöldi.

Guðmundur var við sláttustörf og sat á traktor framan við bæinn þegar hann varð var við flugvélina. „Mér er litið svona til norðurs, það er nú minn háttur að horfa mikið í kringum mig, og ég sé þessa flugvél. Hún silast svona áfram, flaug ekkert hratt, hér þvert yfir dalinn og í átt að Barkárdal - mér fannst hún hverfa þangað,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Tveir menn voru í flugvélinni þegar hún brotlenti, en annar maðurinn lést í slysinu. Hinn maðurinn, Arngrímur Jóhannsson flugstjóri og fyrrum forstjóri Atlanta, var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur og er með alvarlega áverka eftir slysið.

Flugvélin tók á loft frá Akureyri kl. 14:01, en Guðmundur telur að hann hafi séð flugvélina um kl. 14:30. Hann segist ekki hafa orðið þess var að eitthvað væri að vélinni. „Ég gat ekki séð það eða gert mér grein fyrir því á nokkurn hátt.“

Feginn að upplýsingarnar komu að gagni

Þegar Guðmundur lauk slætti í gærkvöldi upp úr kl. 20 hafði Landhelgisgæslan samband og kom hann upplýsingunum áleiðis. Flugvélin fannst svo innst í Barkárdal kl. 20:29.

„Ég heyrði í fréttunum í hádeginu að hann hefði komið sér út úr flugvélinni, en það hefur ekki getað verið hlýtt og örugglega snjór á þessum slóðum. Líklega hefur vistin því ekki verið góð fyrir hann þarna, svo það var gott að upplýsingarnar komu að gagni og flugvélin fannst,“ segir Guðmundur.

Aðspurður hvað hafi orðið til þess að hann myndi eftir flugvélinni segir Guðmundur: „Ég er nú einhvern veginn þannig, ósjálfrátt, og hef alltaf verið, að ég spekulera í umhverfinu í kringum og tek eftir öllu óvenjulegu. Ég rak augun í þessa flugvél af því að hún flaug náttúrlega mjög lágt miðað við það sem maður á að venjast, svo ég mundi nú eftir þessu,“ segir Guðmundur að lokum.

Uppfært 14:34 - Landhelgisgæslan hefur sent frá sér eftirfarandi mynd af vettvangi í Barkárdal. Samkvæmt tilkynningu er stefnt á að flytja flak flugvélarinnar niður í dag eða á morgun.

© Aðsend mynd (AÐSEND)