Jacque Fresco, sjálflærður og ástríðufullur iðnaðarhönnuður sem lengi talaði fyrir gerbreyttri þjóðfélagsmynd í heiminum lést nýverið, 101 árs að aldri. Hann varð nokkuð frægur á níunda áratug síðustu aldar þegar hann gerði tilraunir til að skapa nýtt samfélag þar sem horfið yrði frá notkun peninga og gæðum heimsins yrði dreift á réttan hátt milli manna með hjálp tölva.

Fresco setti á laggirnar hið svokallaða Venus-verkefn i á 21 hektara landi sem hann eignaðist ásamt konu sinni í Flórída árið 1980 en þar var markmiðið að skapa auðlindamiðað hagkerfi sem gæti síðar bjargað samfélagi manna frá misheppnuðu stjórnmálakerfi nútímans.

Endalausar hörmungar

Í viðtali á heimasíðu sinni sagði Fresco að hann óskaði þess að binda enda á stríð, fátækt og óþarfa þjáningu í heiminum. Það var hinsvegar mat hans að það væri ekki hægt í kerfi þar sem peningar væri undirstaðan og ríkustu þjóðirnar stjórnuðu helstu auðlindum heimsins. Ef ekkert yrði að gert sá hann fyrir sér endalausa endurtekningu á stríði, fátækt, efnhagskreppu og uppsveiflum.

Fresco hafði óbilandi trú á tækniþróun og taldi að tölvur myndu einn daginn stjórna flestu í heiminum og meðal annars fara með ríkisstjórn landa. Það taldi hann æskilegt fyrirkomulag þar sem að tölvur starfi án tilliti sérhagsmuna. Vert er að nefna að hagfræðingar voru alla jafna mjög gagnrýnir á kenningar Fresco heitins.