Samtök atvinnulífsins (SA) telja að aðild þeirra að stjórnum lífeyrissjóða hafi verið til góðs fyrir uppbygginu lífeyrissjóðanna, að mati Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra þess. Vilhjálmur hefur setið í stjórn Gildis lífeyrissjóðs og er nú stjórnarformaður sjóðsins. Vilhjálmur skrifar m.a. í nýju fréttabréfi SA samtökin leggja ofurkapp á að fulltrúar þeirra í stjórnum lífeyrissjóða gæti almennra hagsmuna sjóðanna sjálfra og vinni af fullum heilindum fyrir þá sem njóti lífeyrisréttinda.

Vilhjálmur segir jafnframt í pistli sínum að með samstilltu átaki atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar hafi verið byggt upp öflugt kerfi á undanförnum áratugum sem byggi á samkomulagi í almennum kjarasamningum. Hins vegar bendir hann á að ef aðkoma SA að stjórnun lífeyrissjóða sé afþökkuð með lagasetningu eða á annan hátt þá hljóti hlutverki vinnumarkaðarins og kjarasamninga að vera lokið í rekstri og uppbyggingu lífeyrissjóðanna.

„Þá munu íslensk fyrirtæki líta á framlög í lífeyrissjóði sem hvern annan skatt en ekki umsamdar greiðslur til mikilvægra sameiginlegra verkefna með starfsfólki sínu og samtökum þess. Þá liggur beinast við að ríki hafi forystu um þróun lífeyrissjóðakerfisins,“ skrifar Vilhjálmur.

Pistill Vilhjálms Egilssonar