Lögð verður áhersla á að skapa 20 þúsund ný störf á næstu 6 árum, eða til ársins 2015.

Til þess að það náist og Íslands geti skipað sér meðal fremstu þjóða þurfa græðgi og óhóf að víkja fyrir metnaði og fagmennsku þannig að byggja megi upp öflugt atvinnulíf.

Þetta kom fram á kynningarfundi Samtaka atvinnulífsins (SA) í morgun þar sem kynntar voru tillögur í aðdraganda viðræðna vegna framlengingar kjarasamninga fyrir 15. febrúar næstkomandi.

Þeir Þór Sigfússon, formaður SA og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA kynntu tillögurnar.

Þeir lögðu áherslu að í núverandi ástandi þyrfti að bregðast rétt við þegar í stað, lágmarka skaðann og auðvelda nýja uppbyggingu. Nauðsynlegt er að grípa til ráðstafana og taka ákvarðanir sem skapa grunn að nýrri framfarasókn.

Í atvinnustefnu samtakanna er haft eftir Þór að tillögur Samtaka atvinnulífsins að hagsýnni, framsýnni og áræðinni atvinnustefnu séu innlegg í umræðu um hvernig við snúum vörn í sókn og byrjum að skapa störf.

„Það er nauðsynlegt að marka leið út úr þeim ógöngum sem íslenska þjóðarbúið hefur ratað í. Með því að allir viti hvert stefnt er og hvaða leið skuli farin er von til þess að efnahagsvandinn vari skemur en ella. Þannig getum við líka sagt atvinnuleysinu stríð á hendur og skapað störf fyrir stóran hóp ungra Íslendinga sem kemur á vinnumarkaðinn á næstu árum. Það er megin verkefni atvinnulífsins á komandi misserum,“ skrifar Þór í inngani atvinnustefnunar.

Þá kom fram á fundinum að SA munu á næstunni freista þess að ná samkomulagi við Alþýðusamband Íslands og önnur samtök og leggja grunn að kjarasamningum og stöðugleika á vinnumarkaði til næstu ára.