Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins hélt því fram í gær að Seðlabanki Íslands væri að draga úr virkni peningastefnu sinnar með inngripum á gjaldeyrismarkaði. Segir í umfjöllun SA að Seðlabankinn væri annars vegar byrjaður að hækka stýrivexti og hefði boðað frekari vaxtahækkanir á næstu mánuðum. Á sama tíma væri hann að auka peningamagn í umferð með inngripum á gjaldeyrismarkaði.

Segir að verðlagsáhrif þess að auka peningamagn í umferð séu þau sömu og ef Seðlabankinn lækkaði vexti, því slíkt stuðli að verðbólgu, lækki virði krónunnar til lengri tíma og skapi þrýsting á markaðsvexti til lækkunar. Því væri dregið úr áhrifum vaxtahækkana.

Í Fréttablaðinu í dag var haft eftir Má Guðmundssyni seðlabankastjóra að efnahagssvið SA vanmæti umfang stýfðra inngripa bankans. Sagði hann að Seðlabankinn myndi mótvægi gegn gjaldeyriskaupum með tvennum hætti; með viðskiptum Eignasafn Seðlabankans (ESÍ) sem frá áramótum hafa dregið 24 milljarða króna af lausu fé út af markaðnum, og með bundnum reikningum innlánastofnana þar sem samtals hafa verið dregnir inn 98 milljarðar króna frá áramótum.

Í nýrri tilkynningu segir SA að það sé rétt að Seðlabankinn hafi selt eignir úr safni ESÍ fyrir 24 milljarða króna en að sú eignasala sé ekki hátt hlutfall þeirra 200 milljarða króna sem gjaldeyrisinngrip Seðlabankans hafa numið frá áramótum.

Efnhagssvið SA segist þó hafa athugað inngrip Seðlabankans frá áramótum fram til júní 2015 og fengið út að bundin innlán og innistæðubréf hafi dregist saman um 38 milljarða samkvæmt hagtölum bankans. Þó beri að hafa í huga að bundnar innistæður breytist mikið á milli mánaða og mikilvægt sé að skoða þróun yfir lengri tíma í stað stöðunnar í dag.

SA segist því ekki geta tekið undir það að Seðlabankinn sé að draga úr peningamagni í umferð að neinu leyti. Í ljósi þess að bundnar innistæður innlánastofnana sveiflist töluvert sé ekki hægt að fullyrða að staðan í dag segi mikið um stöðuna í næstu viku eða mánuði.

Umfjöllun Efnahagssviðs SA fjalli fyrst og fremst um mikilvægi þess að beita mótvægisaðgerðum við inngripum Seðlabankans til að styðja við virkni peningastefnunnar. Það sé þeirra mat að þær aðgerðir hafi ekki verið nægjanlegar.