Aukinn fjárlagahalli getur dregið efnahagsáhrif kórónuveirufaraldursins á langinn að mati Ragnars Árnasonar prófessor emiritus við Háskóla Íslands að því er segir í Morgunblaðinu .

„Það blasir við að vegna þessarar skuldasöfnunar, sem þarf bæði að borga vexti af og greiða niður, verður að gera annaðhvort; skera niður útgjöld eða fara í skattahækkanir,“ segir Ragnar um áhrif núverandi efnahagslegrar niðursveiflu.

„Það þarf að eiga sér stað mjög mikill hagvöxtur, umfram það sem þarf til að komast upp úr holunni, til þess að við getum forðast þessa tvo kosti. Sá hagvöxtur er ekki fyrirsjáanlegur.“

Ragnar bendir á að næsta ár sé kosningaár sem fjárlög næsta árs dragi dám af en búast megi við að útgjöldin verði hærri þegar upp er staðið.

„[S]érstaklega vegna þess að kosningarnar eru fyrir áramót, og þeir sem koma til með að ráða útgjöldunum fram eftir ári þurfa ekki endilega að taka afleiðingunum af því sem kemur í ljós þegar árið er liðið,“ segir Ragnar sem segir að ef vinstristjórn taki við í kjölfarið muni útgjöldin og hærri skattar verið festir í sessi.

„Reynslan bendir til þess. Vinstristjórnin 2009-2013 … hækkaði skatta og ríkisútgjöld mjög mikið, og þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi stjórnað fjármálaráðuneytinu nær allar götur síðan hafa þessar skattahækkanir og aukning á ríkisútgjöldum ekki gengið til baka. Því er hætt við að hið nýja þrep, sem við erum að stíga upp á, gæti orðið varanlegt.“