Mat SA á kostnaði við stjórnarsáttmálann frá því í desember síðastliðinn er afar nálægt því sem fjármálaáætlun gerir ráð fyrir. Samtals töldu SA að stjórnarsáttmálinn fæli í sér 87 milljarða útgjöld á ári þ.e. 32 milljarða aukningu í árlegum útgjöldum auk 55 milljarða á ári í einskiptisútgjöld og fjárfestingar.

Sé miðað við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sést að áætlað er að yfir fjögurra ára kjörtímabil er áætlað að ríkisútgjöld vaxi um 112,2 milljarða. Það er mismunurinn á milli fjárlaga 2017 og áætlunar fyrir árið 2021. Aukningin mun þó eiga sér stað jafnt og þétt yfir kjörtímabilið. Þannig aukast þau um 47 milljarða milli árana 2017 og 2018 um aðra 35 milljarða árið 2019, tæpa 15 milljarða 2020 og 15 milljarða árið 2021.

Samtals munu ríkisútgjöld því vera 338,3 milljörðum hærri yfir fjögurra ára tímabil frá 2018-2021 en ef þau hefðu staðið í stað miðað við fjárlög ársins 2017. Það gerir 84,6 milljarða á ári sem er býsna nálægt því mati sem Samtök atvinnulífsins lögðu á kostnað við stjórnarsáttmálann.

Í samtali við Morgunblaðið í desember sagðist Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, ekki átta sig á útreikningum SA og þá sérstaklega staðhæfingunni um að útgjöld vegna samgöngu-, fjarskipta-, og byggðamála myndu aukast árlega um 42,2 milljarða. Samkvæmt fjármálaáætlun munu útgjöld til þessara málaflokka samtals yfir fjögurra ára tímabil vera 27,6 milljörðum hærri en ef útgjöld hefðu staðið í stað frá árinu 2017. Það gerir tæplega 7 milljarða á ári. Svo virðist því sem SA hafi ofáætlað útgjaldaaukningu til framangreindra málaflokka en vanáætlað útgjaldaaukningu í öðrum málaflokkum.

Eftir sem áður virðist kostnaðarmat samtakanna verið nokkuð nálægt því sem ríkisstjórnin áætlar í auknum ríkisútgjöldum.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, segir að ríkisfjármálaáætlun sé í raun staðfesting á þeirri útgjaldaaukningu sem boðuð var í stjórnarsáttmálanum. „Eins og sáttmálar eru þá eru þeir ekkert mjög ítarlegir en við vorum þó að reyna að kostnaðarmeta ákveðna þætti. Einhverjir voru varanlegir en aðrir voru einskiptisliðir. Við vorum ekki að segja með okkar greiningu að útgjöld væru að fara að vaxa árlega um 90 milljarða út í hið óendanlega. Samt sem áður sýnir þessi útgjaldaaukning sem verið er að boða að sáttmálinn er hafður að leiðarljósi,“ segir hún.

Ísland fest í sessi sem háskattaríki

Þá segir hún óheppilegt hvernig áherslan sé á aukningu útgjalda en ekki aukinn árangur eða betri þjónustu. „Áherslan hefur verið að auka sífellt útgjöld til ýmissa málaflokka án þess þó að horfa til þess hverju það skilar. Við hefðum viljað sjá aukna áherslu á skilvirkari nýtingu þeirra fjármuna sem ríkissjóður hefur þegar úr að spila. Við viljum sjá aukna áherslu á að stjórnvöld skapi það svigrúm sem þarf á útgjaldahliðinni til þess að lækka skatta. Við getum ekki betur séð en að með þessari fjármálaáætlun séu stjórnvöld að festa Ísland í sessi sem háskattaríki,“ segir hún. „Það eru vonbrigði að okkar mati að áherslan sé sífellt á að auka útgjöld í stað þess að horfa til þess hvernig megi nýta fjármunina betur.“

Hún bendir jafnframt á að umræðan sé öðruvísi annarsstaðar. „Til dæmis má spyrja sig af hverju það eigi að vera sjálfstætt markmið að heildarútgjöld til heilbrigðismála yrðu 11% af landsframleiðslu, eins og einhverjir stjórnmálaflokkar voru að boða fyrir kosningar. Þýðir það endilega betri þjónustu? Í Danmörku nálgast menn umræðuna með allt öðrum hætti. Þar eru útgjöld til heilbrigðismála um 10% af landsframleiðslu en þar í landi er áherslan fyrst og fremst á að auka gæði án þess að auka endilega útgjöld til málaflokksins. Markmiðið þar er að ná meiru út úr fjármununum og geta mætt aukinni þörf með betri nýtingu,“ segir Ásdís.

Ennfremur telur hún eðlilegt að spyrja sig ákveðinna spurninga. „Þrátt fyrir að umsvif hins opinbera eru nú þegar með því hæsta sem gerist meðal OECD ríkja er sannanlega skortur til ýmissa málaflokka og við getum flest verið sammála um það. Þurfum við þá ekki að spyrja okkur hvað veldur því að þeir gríðarlegu fjármunir sem stjórnvöld hafa úr að spila nú þegar duga ekki til? “ spyr Ásdís.