Samtök atvinnulífsins telja nauðsynlegt að endurskoða verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands eins og það var upphaflega sett fram með samkomulagi bankans og ríkisstjórnarinnar 27. mars 2001. Við þessa endurskoðun þarf að taka tillit til þess að stjórntæki bankans, stýrivextirnir, hafa takmörkuð samdráttaráhrif á eftirspurn og verðbólgu, en leiða til verulegra sveiflna á gengi íslensku krónunnar að því er segir í frétt á vef  SA.

Þar kemur fram að viðvarandi hátt gengi krónunnar hefur átt drjúgan þátt í miklum halla á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd og gert útflutnings- og samkeppnisatvinnuvegunum mjög erfitt fyrir. Í bréfi SA til forsætisráðherra ítreka samtökin áhyggjur sínar af afleiðingum peningamálastefnu Seðlabankans og þeim óstöðugleika sem hún veldur. Bréfið er sent í framhaldi af bréfi SA til forsætisráðherra 4. júní sl. Í því segir m.a. að sveiflur á gengi krónunnar frá þeim tíma gefi enn brýnt tilefni til þess að hefja nú þegar vinnu við að undirbúa stefnubreytingar.