*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Innlent 3. febrúar 2020 15:15

SA kenna notkun GRI staðla

Námskeið í notkun staðla um samfélagsábyrgð fyrirtækja kosta 220 þúsund krónur og verða kennd í mars.

Ritstjórn
Námskeiðið verður haldið í höfuðstöðvum SA, Húsi atvinnulífsins í Borgartúni.
Haraldur Guðjónsson

Aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins og Festu fá 10% afslátt af námskeiði sem samtökin halda um notkun svokallaðra GRI staðla um miðlun upplýsinga um samfélagsábyrgð fyrirtækjanna.

Námskeiðið verður haldið í Húsi atvinnulífsins 9. og 10. mars næstkomandi en þau eru haldin í samvinnu við FBRH í London og Navigo. Það er jafnframt vottað af Global Reporting Initiative, en þau fjalla ítarlega um samfélagsábyrgð fyrirtækja og stofnana og ábyrð í rekstri, áherslu á jákvæð áhrif á umhverfið, stjórnarhætti og samfélagið.

Námskeiðsgjaldið er um 220 þúsund krónur, en á vef SA um málið er sagt að flest stéttarfélög styrki þáttöku félagsmanna á slík námskeið. Global Reporting Initiative, eða GRI staðlarnir, eru alþjóðlega viðurkenndir staðlar um miðlun upplýsinga um samfélagsábyrgð og eru notaðir í yfir 100 löndum.

Um 80% af 250 stærstu fyrirtækjum heims nota GRI staðlana við gerð samfélagsskýrslna. GRI staðlarnir eru taldir víðtækustu og nákvæmustu staðlarnir til að halda utan um efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsáhrif fyrirtækja og stofnana. UN Global Compact og Nasdaq mæla með að nota staðlana.

Markmið námskeiðsins er að þáttakendur öðlist þekkingu á hvernig hægt er að nýta staðlana sem verkfæri. Á þessu tveggja daga námskeiði munu þátttakendur fá ítarlega fræðslu um GRI hugmyndafræðina og  hvernig gera á samfélagsskýrslu sem byggð er á GRI stöðlunum:

  • Hvað GRI stendur fyrir og hvernig samfélagsskýrslur eru byggðar á GRI stöðlunum.
  • Greina hvaða áhrif fyrirtæki eða stofnun hefur á umhverfið, efnahag og samfélag.
  • Hvernig er hægt að nota GRI staðalana til að ná samkeppnisforskoti.
  • Hvernig GRI staðlarnir tengjast UN Global Compact, Nasdaq og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
  • Að námskeiðinu loknu munu þátttakendur hafa öðlast þekkingu til að hefja undirbúning að gerð samfélagsskýrslu samkvæmt GRI stöðlunum.
  • Námskeiðið nýtist sem undirbúningur fyrir próf um GRI staðla hjá Global Reporting Initiative.

Leiðbeinendur verða ráðgjafar frá FBRH, en þeir hafa um árabil veitt ráðgjöf um samfélagsábyrgð og þjálfað starfsfólk fyrirtækja víða um heim í notkun GRI staðla við gerð samfélagsskýrslna. FBRH hafa öðlast vottun Global Reporting Initiative (GRI) og viðurkenningu frá Institute of Environmental Management and Assessment (IEMA) í Bretlandi.