Samtök Atvinnulífsins hafa gefið út nýtt fréttabréf. Í því kemur fram að SA telja verulegt svigrúm vera til að bæta rekstur sveitarfélaga. Auk þess er fjallað um nauðsynlegar umbætur í menntakerfinu og lagt til að ljósvakamiðlar fái jöfn tækifæri til að sinna hlutverki RÚV.

„Svipleg örlög stöðugleikasáttmálans breyta því ekki að gera verður nýja atrennu að því að ná atvinnulífinu á alvöru skrið, skapa störf og eyða atvinnuleysinu. Ríkisstjórnin kemur óhjákvæmilega að því en í samskiptum við ríkisstjórn og önnur stjórnvöld þarf í ljósi reynslunnar að ganga mun tryggilegar frá málum en áður var nauðsynlegt. Nú þarf að miða við að lagabreytingar sem ríkisstjórn vill beita sér fyrir í samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins verði samþykktar áður en gengið er frá kjarasamningum og sambærilegt gildi um stjórnvaldsákvarðanir.“ Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, í leiðara fréttabréfsins.

Í fréttabréfinu kemur fram að fjárhagur flestra sveitarfélaga þolir ekki lausatök og mikilvægt er að sveitarfélög sæki leiðir til hagræðingar í reynslu hjá hverju öðru. Breytileiki í kostnaði sveitarfélaga á hvern íbúa er mikill sem sýnir að verulegt svigrúm er fyrir bættan rekstrarárangur sem nauðsynlegt er að nýta. Í tillögum Samtaka atvinnulífsins að nauðsynlegum umbótum í fjármálum hins opinbera kemur fram að hægt sé að hagræða á vettvangi sveitarfélaganna fyrir um 20 milljarða króna á ári.

Jafnframt segir í fréttabréfinu að þrátt fyrir að útgjöld til menntamála á Íslandi séu hærri en í öðrum OECD ríkjum sem hlutfall af landsframleiðslu þá skilar það sér ekki sem skyldi í árangri í menntun. Menntunarstig landsmanna 25-64 ára er töluvert undir meðaltali OECD ríkja.

Þá segja SA að skatttekjur Ríkisútvarpsins séu vel á fjórða milljarð króna á ári. Að mati Samtaka atvinnulífsins er óhjákvæmilegt að þessi starfsemi verði fyrir miklum niðurskurði á næstunni. Mikil framþróun hefur átt sér stað í fjölmiðlun á síðustu árum og því eðlilegt að ljósvakamiðlar fái allir jöfn færi á að sinna því hlutverki sem Ríkisútvarpið gegnir nú samkvæmt útvarpslögum: Að gegna öryggishlutverki á hættutímum, flytja fréttir og skoðanaskipti, standa vörð um íslenska tungu, menningararfleifð og sögu þjóðarinnar, flytja lista- og menningarefni, fræða hlustendur, flytja skemmtiefni, sérstaklega fyrir börn og senda dagskrána út til landsins alls.