Það var í kjölfar efnahagskreppunnar árið 2008 sem Samtök atvinnulífsins lögðu til að atvinnutryggingagjald yrði hækkað til að standa undir fyrir fyrirsjáanlegri aukningu atvinnuleysis.

Nú hins vegar krefjast samtökin þess að tryggingagjaldið verði lækkað í samræmi við minnkandi atvinnuleysi. Þetta kemur fram á vef SA.

Samtökin telja nauðsynlegt að lækka tryggingagjaldið sem allra fyrst. Þau segja hátt gjald koma harðast niður á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, þar sem flest ný störf verða til.

Enn fremur segja þau að fyrirtæki sem sé með tíu starfsmenn í vinnu greiðir í raun laun þess ellefta sem fær ekki að koma í vinnuna.

Forstjóri Vinnumálastofnunar lýsti því yfir í Morgunblaðinu í dag að honum fyndist nauðsynlegt að atvinnulífið greiddi áfram hærra gjald en þarf til að fjármagna bæturnar.

SA segja það mikinn misskilning hjá forstjóranum að fjármunum atvinnulífsins sé betur komið undir hans stjórn. Það megi sjá af því að þjónustutekjur stofnunarinnar hafi farið sívaxandi undanfarin ár - langt um fram verðbólgu.