*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 19. maí 2015 13:21

SA: Kröfur SGS þýða uppsagnir í öðru hverju fyrirtæki

Nái kröfur Starfsgreinasambandsins fram að ganga mun starfsmönnum fyrirtækja fækka um 14%, segir í umfjöllun SA.

Ritstjórn
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Haraldur Guðjónsson

Samtök atvinnulífsins segja að afleiðingarnar yrðu alvarlegar fyrir fyrirtæki og heimili landsins ef kröfur Starfsgreinasambandsins um 50 til 70% almennar launahækkanir á næstu þremur árum ná fram að ganga. Ný könnun meðal aðildarfyrirtækja samtakanna sýni að meira en annað hvert fyrirtæki, eða 55,4%, myndu neyðast til að bregðast við miklum launahækkunum með fækkun starfsfólks og verulegri hækkun á verði fyrir vörur og þjónustu. Þetta kemur fram í umfjöllun á vef samtakanna.

Þar segir að 43,5% stjórnenda geri ráð fyrir að fækkun starfsfólks verði á bilinu 5 til 15%. Þá gerir 31% ráð fyrir að fækkun starfsfólks verði á bilinu 16 til 30% og 10% stjórnenda gera ráð fyrir að fækka fólki um 31 til 50%. Loks gera 10% stjórnenda ráð fyrir að fækkunin verði innan við 5%. Tæp 5% fyrirtækja gera ráð fyrir að hætta starfsemi verði kröfur SGS að veruleika.

Störfum gæti fækkað um 16 þúsund

Hjá fyrirtækjunum í könnuninni starfa 24 þúsund starfsmenn.

„Þegar mat stjórnenda fyrirtækjanna á þeirri fækkun starfsmanna sem muni hljótast af 50-70% launahækkun á þremur árum er vegið saman með starfsmannafjölda fyrirtækjanna fæst að starfsmönnum þessara fyrirtækja muni fækka um 14%, eða um 3.400. Sé sú niðurstaða yfirfærð á almenna vinnumarkaðinn í heild fæst að starfsmönnum gæti fækkað um 16.000,“ segir í umfjöllun SA.

Verðbólga á flug

Þá kemur fram að áhrif 50 til 70% launahækkana yrðu mikil á verðlag sem myndi fara á fleygiferð. Alls segjast 86% stjórnenda þurfa að hækka verð á vörum og þjónustu sinna fyrirtækja verði samið um slíkar hækkanir.

„Að mati stjórnendanna myndi verðlag hækka mjög mikið. Flestir (39%) gera ráð fyrir því að verðlag hækki um 5-15%, tæpur þriðjungur (31%) telur verðlag hækka um 16-30%, tæpur fimmtungur (18%) gerir ráð fyrir því að verðlag hækki um 31-50% og 9% gera ráð fyrir að verðlag hækki um meira en 50%. Aðeins tæp 3% segja að verðlag muni hækka innan við 5%.“