Samtök atvinnulífsins leggja til að áformum um allt að 45 milljarða króna fjárfestingu í nýju húsnæði fyrir Landspítala-háskólasjúkrahús (LSH) verði frestað að sinni.

Þess í stað einbeiti heilbrigðisyfirvöld sér að því að bæta þjónustu á þeim sviðum þar sem það er brýnast, t.d. í öldrunarmálum. Kostir einkarekstrar verði nýttir með útboðum á þjónustu, valkostum fólks verði fjölgað og nýting fjármuna bætt. Þetta kemur fram í nýju riti SA um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu.

Í riti SA er bent á að fjárhagsleg markmið í íslenskri heilbrigðisþjónustu hafi algjörlega gleymst en stjórnvöld geti ekki vikið sér undan því lengur að taka á heilbrigðismálunum með festu. Útgjöld til heilbrigðismála vaxa hratt á Íslandi og hefur OECD spáð því að verði ekkert að gert verði útgjöldin komin í bandaríska yfirstærð árið 2050 og nema rúmum 15% af vergri landsframleiðslu. Á síðasta ári námu heildarútgjöld vegna heilbrigðisþjónustu og umönnunar 9,6% af vergri landsframleiðslu - sem er með því hæsta sem þekkist innan OECD?landanna.

Á næstu þrjátíu árum mun fjöldi eldri borgara tvöfaldast á Íslandi og þrýstingurinn á heilbrigðiskerfið því aukast verulega.Væri hlutfall heilbrigðisútgjalda komið yfir 15% af vergri landsframleiðslu í dag þá þyrftu Íslendingar að verja 55 milljörðum króna aukalega í þennan málaflokk árlega. Fyrir þá upphæð væri hægt að byggja eitt svokallað hátæknisjúkrahús og sex fullkomin hjúkrunarheimili fyrir aldraða á hverju ári. Samtök atvinnulífsins telja í ljósi mikilla og vaxandi útgjalda til heilbrigðismála, að það ætti að vera forgangsverkefni að minnka yfirbyggingu íslenskrar heilbrigðisþjónustu og að leitað verði hagkvæmustu lausna við rekstur hennar.