"Júlímánuður er álagstími á vegum landsins, bæði vegna umferðar Íslendinga og erlendra ferðamanna. Á undanförnum árum hefur álag á vegum aukist svo um munar en frá 2009 til 2016 jókst umferð á Hringveginum um 22%. Það er ljóst að slík umferðaraukning veldur aukinni þörf á viðhaldi og nýframkvæmdum í vegakerfinu, sér í lagi í þéttbýli. Þrátt fyrir aukið álag á vegum þá drógust útgjöld hins opinbera til vegasamgangna saman um 13% á föstu verðlagi á sama tímabili," þetta kemur fram í frétt á vef Samtaka atvinnulífins .

Jafnframt kemur fram að samkvæmt könnun Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) meðal helstu stjórnenda er ástand og gæði íslenska vegakerfisins verra en gengur og gerist innan flestra ríkja OECD og undir meðaltali, eins og sjá má á mynd hér fyrir neðan. Það er því ljóst að ef Ísland á að vera í fararbroddi með nútíma innviði, líkt og gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun 2019-2023, þarf að huga að mörgu við gerð aðgerðaáætlunar samgöngumála fyrir árin 2019-2022, sem leggja á fram á haustþingi. Sér í lagi þarf að huga að fjármögnun þeirra framkvæmda sem nauðsynlegar eru.

Hver sá sem nýlega hefur keyrt um einhverja af þeim 26.000 km sem spanna íslenska vegakerfið hefur varla farið varhluta af ástandi þeirra. Í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins er uppsöfnuð viðhaldsþörf þjóðvega metin á u.þ.b. 70 milljarða króna.Við þetta bætast svo árlega um 7-8 milljarðar vegna reglubundins viðhalds.

Tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2015 til 2026 er einungis reiknað með 86 milljörðum króna í viðhald vegakerfisins. Ef tekið er mið af framangreindu má ætla að viðhaldskostnaður ríkisins vegna þjóðvega geti numið allt að 150 milljörðum króna fram til ársins 2026. Eyrnamerkt fjármagn dugar því skammt. Áhugavert verður að sjá hvort á þessu verði tekið, og þá hvernig, í aðgerðaáætlun áranna 2019-2022. Til viðbótar má nefna að samkvæmt mati sem kom fram í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins um innviði á Íslandi er uppsöfnuð viðhaldsþörf sveitarfélagavega 40-60 milljarðar króna en slíkir vegir eru ekki í samgönguáætluninni enda á forræði sveitarfélaga.

"Ekki er hins vegar minnst á veggjöld, annars konar notkunargjöld eða aðkomu einkaaðila í fjármálaáætlun ríkistjórnarinnar fyrir árin 2019 til 2023. Það er athyglisvert í ljósi þess að óbreytt fjármögnun mun duga skammt til að mæta þeim áskorunum sem framundan eru. Þegar horft er til þeirrar þróunar sem verið hefur þá liggur í augum uppi að horfa þarf til fjármögnunar vegakerfisins upp á nýtt. Í raun má segja að tvær leiðir séu færar í þeim efnum. Annars vegar er mögulegt að hækka þeim mun meira þau gjöld sem nú þegar eru innheimt af ökutækjum, s.s. eldsneytis- og vörugjöld, og hins vegar væri hægt að hefja innheimtu veggjalda," segir í tilkynningunni.