Samtök atvinnulífsins velta því upp hvort að ábyrgt sé að treysta á eitt lengsta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar í nýrri greiningu efnahagssviðs samtakanna . Þar segir meðal annars tekin fyrir fjármálastefna fjármálaráðherra, sem gerir ráð fyrir ráð fyrir afgangi í rekstri hins opinbera.

„Sést það t.a.m. á því hversu lítið má út af bregða í tekjuáætlunum hins opinbera til þess að sá litli afgangur sem fyrirhugaður er á næstu árum snúist í umtalsverðan halla. Er það sérstaklega mikið áhyggjuefni vegna þeirrar alvarlegu skuldastöðu sem enn blasir við en opinberar skuldir eru tvöfalt hærri nú en þær voru í aðdraganda bankakreppunnar síðustu,“ segir meðal annars í nýrri greiningu efnahagssviðs SA.

Óraunhæft og óábyrgt

Samtök atvinnulífsins benda jafnframt á það að það sé í senn óraunhæft og óábyrgt að allar áætlanir opinberra aðila virðist ganga út frá því að núverandi hagvaxtarskeið verði langsamlega lengsta uppsveifla Íslandssögunnar.

„[..] þessi efnahagsuppsveifla mun enda taka líkt og allar þær sem á undan henni komu,“ er jafnframt tekið fram í greiningunni.

Hljómlitlar raddir um aga í opinberum rekstri

Samtök atvinnulífsins benda jafnframt á það að í stefnuræðu sinni hreykti forsætisráðherra af 8% útgjaldaaukningu í síðustu fjárlögum.

„Nýskipaður fjármálaráðherra lét einnig hafa eftir sér í viðtali við Viðskiptablaðinu að „Hrófla ekki við ríkisumsvifum“ og gaf því í skyn að sögulega umsvifamikið ríkisvald og eitt það stærsta meðal þróaðra ríkja væri eðlilegt fyrir Ísland. Allar skoðanir má hafa á umfangi hins opinbera í íslensku hagkerfi en áhyggjuefni er hversu fáar og hljómlitlar raddir um aga í opinberum rekstri eru orðnar á Alþingi Íslendinga þó ekki nema fyrir þær sakir að núverandi stefna er áhættusækin og óábyrg,“ er tekið fram í frétt á síðu Samtaka atvinnulífsins.

Agi í fjármálum ekki það sama og blóðugur niðurskurður

„Agi í fjármálum hins opinbera er ekki það sama og blóðugur niðurskurður í grunnstoðum velferðarsamfélagsins. Snýst aginn um virka forgangsröðun og betri nýtingu fjármuna. Forgangsröðunin er einföld en krefst pólitísks þreks. Sé vilji til að auka fjárveitingar til  heilbrigðis- og menntamála ætti að vera hægur leikur að minnka útgjöld til annarra mála. Gefur það augaleið að þegar heildarútgjöld hins opinbera eru ein þau mestu meðal þróaðra ríkja er svigrúm til slíks fyrir fjárveitingavaldið,“ er einnig tekið fram í samantektinni.

SA segir að betri nýting fjármuna sé margslunginn en bendir þó á að margar leiðir séu vel framkvæmanlegar. Þau telja það jákvætt að stefnt sé að því að opna bókhald ríkisins. Þó segja þau að það þurfi að skoða sameiningu og fjölbreytt rekstrarform - sem kemur ekki niður á aðgengi þeirra sem þurfa að nýta sér þjónustu sem hið opinbera sannarlega á að veita.

„Ekki er ábyrgt að eyða stjórnlítið á góðæristíma. Auk þess að ýta undir þenslu minnkar það svigrúm hins opinbera til þess að bregðast við efnahagslægð. Sé ætlunin að draga úr skattálögum á almenning er einnig ljóst að útgjaldavöxtinn þarf að hemja. Þú eyðir ekki sömu krónunni tvisvar,“ segir í lok umfjöllunar SA.