Í umsögn SA um frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins um eldsneytismarkaðinn segir að samtökin telji vanta mat á áhrif af einstaka tillögum stofnunarinnar þótt almennt sé þeim ætlað að auka samkeppni. Þá telja SA að ekki sé litið til framtíðar í skýrslunni, að nauðsynlegt sé að regluverk hins opinbera ýti undir samkeppni og að tillögur Samkeppniseftirlitsins varðandi verðstýringu séu „hefðbundin hótun.“

SA telja að tækniþróun undanfarinna ára, sem kemur fram í sífellt sparneytnari bílvélum og nýjum orkukostum, muni valda grundvallarbreytingum á hefðbundnum eldsneytismarkaði á næstu árum. Ekkert sé fjallað um þessar breytingar í skýrslunni. Þá segja samtökin æskilegt að skoða kostnað fyrirtækjanna á markaðnum vegna innheimtu og álagningar opinberra gjalda, sem eru bæði lögð á sem föst krónutala og sem hlutfallsgjald.

Mótmæla aðdróttunum varðandi eignarhald

„Samtökin mótmæla sérstaklega aðdróttunum um að eignarhald eða önnur aðkoma lífeyrissjóða að olíufélögum sé til þess fallið að hafa áhrif á eða draga úr samkeppni,“ segir í umsögninni. „Lífeyrissjóðirnir gæta hagsmuna almennings í landinu og yrði aldrei liðið að beita sér á þann hátt sem ýjað er að í skýrslu Samkeppniseftirlitsins (bls. 138 og 298). Engar vísbendingar fylgja heldur sem styðja málflutning eftirlitsins og hann því marklaus.“

Þá segja SA að skýrslu Samkeppniseftirlitsins ljúki á hefðbundinn hátt með hótun um verðstýringu. Engan veginn sé víst að þær aðgerðir muni skila neytendum ábata sem stofnunin vonast eftir.

„Miðað við meginniðurstöður skýrslunnar þar sem ekki er upplýst um nein brot á lögum, ósannfærandi mat á hvert eigi að vera eldsneytisverð í smásölu, ekkert mat lagt á hvað áhrif einstök úrræði yfirvalda geti haft á eldsneytisverð verður ekki séð að efni sé til breytinga á skipulagi fyrirtækja eða uppskiptingu þeirra.

Hafa verður í huga að niðurstöður skýrslunnar miðast að langmestu við árið 2012 og því geta liðið fimm ár eða lengri tími þar til hugsanleg beiting þessara úrræða kemur til með að hafa áhrif.

Erfitt er að segja fyrir um það hvað teljist þá eðlileg markaðsniðurstaða. Það liggur ekki í augum uppi hvernig markaðurinn muni þróast á næstu árum þrátt fyrir ofurtrú stjórnvalda á eigin getu til að sjá fyrir óorðna hluti,“

segir í umsögn SA.