Skoðanir eru mjög skiptar innan Samtaka atvinnulífsins (SA) um Evrópusambandsmál en í nýlegri skoðanakönnun samtakanna kemur fram meirihluti er í fimm aðildarsamtökum SA fyrir því að SA beiti sér fyrir aðild að ESB og upptöku evru en meirihluti í þremur er því andvígur

„Á grundvelli niðurstaðna könnunarinnar er staðfest að SA muni ekki beita sér fyrir aðild Íslands að ESB og upptöku evru á Íslandi,“ segir á vef Samtakanna en niðurstöðurnar voru kynntar á fundi stjórnar SA í dag.

„SA verða áfram virkur þátttakandi í Evrópuumræðunni og munu gæta hagsmuna allra félagsmanna á grundvelli þess að skoðanir eru skiptar um hvort sækja eigi um aðild að ESB eða ekki.“   Skoðanakönnun SA fór fram dagana 24. nóvember - 5. desember 2008. Félagsmenn voru spurðir: Vill þitt fyrirtæki að SA beiti sér fyrir aðild Íslands að ESB og upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi?  Svarmöguleikar voru já, nei og tekur ekki afstöðu. Könnunin var send til 1.649 félagsmanna í átta aðildarfélögum SA. Fyrirtækin hafa vægi í samtökunum eftir stærð og var þátttakan 62,6% á grundvelli atkvæðavægis fyrirtækjanna.

Niðurstaðan var sú að fyrirtæki með 42,7% atkvæða svöruðu spurningunni játandi, 40,1% neitandi og 17,0% tóku ekki afstöðu. Ef einungis er litið til þeirra sem tóku afstöðu þá svöruðu 51,6% játandi og 48,4% neitandi.

Könnunin varð tilefni deilna milli forystu SA og forystumanna eins aðildarfélagsins, LÍÚ.

Í lok nóvember hótuðu forystumenn LÍÚ úrsögn úr samtökunum yrði SA beitt fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Sjá nánar á vef SA. Þar má meðal annars sjá niðurstöðu einstakra félaga innan SA.