Samtök atvinnulífsins eru fullviss um að opinberar spár, um að hagur íslensku þjóðarinnar muni halda áfram að versna á þessu ári og atvinnuleysi að aukast, þurfi ekki að ganga eftir. Hér á landi geti orðið viðsnúningur og grundvöllur skapast fyrir nýja framfarasókn.

Til að undirbyggja þá skoðun sína hafa forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins boðað fjölmiðla til fundar eftir hádegi þar sem kynnt verður ný stefnumörkun um atvinnu- og efnahagsmál, sem miði að sköpun nýrra starfa og uppbyggingu atvinnulífs á þessu ári og næst framtíð. "Meginmarkmiðið er að útrýma atvinnuleysi og tryggja að ný störf verði til fyrir þá sem koma út á vinnumarkaðinn á næstu árum," segir í tilkynningu frá SA.

Samtök atvinnulífsins segja í tilkynningu að þau telji að örlög íslensks atvinnu- og efnahagslífs séu fyrst og fremst í höndum Íslendinga sjálfra. Aðgerðir eða aðgerðaleysi ráði því hvernig til takist að komast út úr kreppunni í kjölfar bankahrunsins í október 2008.