Í tilefni mikillar fjölgunar erlendra sjálfboðaliða sem gefið hafa kost á sér í störf sem til þessa hefur verið sinnt af launafólki segja samtök aðila vinnumarkaðarins mikilvægt er að sameiginlegur skilningur gildi á vinnumarkaði um störf sjálfboðaliða.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Í yfirlýsingunni árétta samtökin að það sé andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja.

Benda samtökin á að um þessi störf gildi ákvæði kjarasamninga, að launafólk hefur sinnt þessum störfum og þeim verði því ekki skipt út fyrir sjálfboðaliða. Jafnframt er tekið fram að samningar við einstaklinga um lakari kjör en kjarasamningar kveði á um séu ógildir.

Þó er tekið fram að sjálfboðaliðastörf eigi sér hins vegar langa sögu og þau séu mikilvæg þeim aðilum sem vinna í þágu almannaheilla að góðgerðar-, menningar- og mannúðarmálum. Samtökin segjast ekki gera athugasemd við þau störf sjálfboðaliða enda byggi þau á langri venju og sátt hafi verið um þau.