Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands ásamt landssamböndum þess náðu í gær samningum um breytingar á kjarasamningum, sem fyrir vikið verða áfram í gildi a.m.k. út árið 2007, segir greiningardeild Glitnis.

?Samkomulagið felur í sér að starfsmanni sem er í starfi í júlíbyrjun 2006 og starfað hefur samfellt hjá sama vinnuveitanda frá júní 2005 er tryggð að lágmarki 5,5% launahækkun á þeim tíma," segir greiningardeildin.

Að auki var náðist samkomulag 15 þúsund króna taxtaviðauka ?og er þeim viðauka ætlað að bæta það misvægi sem hefur skapast á milli samningsbundinna launataxta á samningssviði SA og verkalýðsfélaga annars vegar og þeim sem gilda hjá hinu opinbera hins vegar. Loks hækka lágmarkstekjur úr 108 þúsund krónur í 123 þúsund krónur frá 1. júlí 2006 og verða 125 þúsund krónur frá 1. janúar 2007," segir greiningardeildin.

Persónuafsláttur hækkaður

Greiningardeildin segir að í tengslum við samkomulag aðila vinnumarkaðarins hefur ríkisstjórn Íslands sent frá sér yfirlýsingu þar sem ríkisstjórnin lýsir sig reiðubúna til að m.a. hækka persónuafslátt úr 29.029 kr. í 32.150 og endurskoða vaxta og barnabætur.

?Vegna þessara breytinga mun ríkisstjórnin beita sér fyrir að tekjuskattur einstaklinga lækki um 1% um næstu áramót í stað 2% lækkunar sem áður var fyrirhuguð. Auk þessa segir ríkisstjórnin í yfirlýsingu sinni að hún muni beita sér fyrir að auka framlög til fullorðins- og starfsmenntamála og hækka atvinnuleysisbætur," segir greiningardeildin.

Gjaldið meiri verðbólga?

?Eins og við höfum bent á áður þá þarf að skoða ofangreinda samninga og aðkomu stjórnvalda að þeim í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru á vinnumarkaði. Við núverandi aðstæður eru miklar líkur á því að hækkanir sem samið er um til viðbótar á almennum grundvelli, hvort sem er í gegnum fjárhag ríkis eða fyrirtækja, endi í aukinni verðbólgu og skili þar með litlu sem engu í auknum kaupmætti. Segja má að gjaldið sem greitt er fyrir frið á vinnumarkaði sé því að líkindum meiri verðbólga og hraðari launahækkanir," segir greiningardeildin.