Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins náðu í dag samkomulagi, í tengslum við endurskoðun kjarasamninga, um tillögur sem miða að því að styrkja atvinnulífið, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Greiningardeildin segir að tillögurnar fjalli meðal annars um skyldur erlendra fyrirtækja hér á landi auk kjara og réttinda starfsmanna þeirra en tillögurnar SA og ASÍ verða kynntar stjórnvöldum í dag, með von um jákvæð viðbrögð.

"Að mati greiningardeildar væri heppilegt í núverandi verðbólguumhverfi að samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins næðist sem fyrst. Það myndi draga úr óvissu á markaði og að öllum líkindum draga úr verðbólguvæntingum almennings og minnka líkur á mögulegum víxlhækkunum launa og verðlags. Með samningi nú væri hægt að koma í veg fyrir þann möguleika að kjarasamningum verði sagt upp um næstu áramót með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenskt efnahagslíf," segir greiningardeildin.