Bæði Samtök atvinnulífsins , og Samtök aðila í ferðaþjónustu hafa sent frá sér harðorðar yfirlýsingar vegna afstöðu verkalýðshreyfingarinnar um að draga tímabundið úr launakostnaði fyrirtækja í landinu meðan þau eru að aðlagast efnahagslegum áhrifum útbreiðslu kórónaveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær höfðu þá þegar yfir 25 þúsund umsóknir um hlutaatvinnuleysisbætur borist Vinnumálastofnun, og bendir SA á að ríflega helmingur þeirra miði við 25% starfshlutfall hjá atvinnurekendum sem hafi þá í mörgum tilvikum tímabundið hætt sinni starfsemi. SAF bendir á að mjög stór hluti þessara umsókna hafi verið frá ferðaþjónustufyrirtækjum og starfsfólki þeirra, sem sýni svart á hvítu hve alvarleg staðan sé í greininni.

SA segja afstöðu Alþýðusambands Íslands um að hafna tímabundinni lækkun mótframlags atvinnurekenda í lífeyrissjóði valda miklum vonbrigðum, meðan SAF fordæma afstöðu ASÍ og segja ekki hægt að skilja hana öðru vísi en að verkalýðshreyfingin sé að skorast undan ábyrgð. Höfðu bæði samtökin bundið vonir við að sátt myndi nást um tímabundna lækkun framlags atvinnurekenda úr 11,5% í 8%.

Segir SAF að með því að hafna því „hyggist [ASÍ] ekki leggjast á árarnar með stjórnvöldum og atvinnulífinu á neinn hátt í þeirri lífsbaráttu sem íslensk ferðaþjónusta og efnahagslíf í heild stendur frammi fyrir næstu mánuði og ár“ og því sé ekki lengur hægt að treysta því að hreyfingin sýni ábyrgð í þeim grafalvarlegu aðstæðum sem samfélagið glími nú við sem heild.

SA bendir á að frá og með í dag hækki laun á almennum vinnumarkaði um 4% eða meira, það er að lágmarki um 24 þúsund krónur hjá þeim sem hafi lægri laun og 18 þúsund krónur hjá þeim sem hafa hærri laun samkvæmt Lífskjarasamningunum svokölluðu.

„Launahækkunin 1. apríl stuðlar að fleiri uppsögnum starfsfólks en annars hefði orðið. Tímabundin lækkun mótframlags í lífeyrissjóði hefði mildað verulega höggið sem fyrirtækin verða fyrir vegna launahækkunarinnar ofan á gjörbreytta efnahagsstöðu,“ segir í yfirlýsingu SA og benda á fordæmi um frestun slíkra umsaminna hækkana, til að mynda í kjölfar fjármálahrunsins 2008.

„Samningurinn, sem gerður var í fyrra, felur í sér kostnað fyrir fyrirtækin í landinu á sama tíma og þau standa mörg frammi fyrir gríðarlegu tekjufalli og mikilli óvissu um framhaldið. Launahækkunin eykur launakostnað alls atvinnulífsins um 50 milljarða króna á ársgrundvelli, eða 4 milljarða á mánuði. Verkalýðshreyfingin hefur hafnað málaleitan atvinnurekenda um að milda eða fresta hækkunaráhrifum samningsins.“

SA segir að eftir efnahagshrunið 2009 hafi sameiginleg viðbrögð samningsaðila almenna vinnumarkaðsins verið að reyna að vernda störf og atvinnustarfsemi, en þeir segja núverandi forystu ASÍ hafa allt aðra afstöðu. Þess má geta eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá í dag að bæði 1. varaforseti hreyfingarinnar, Vilhjálmur Birgisson , sem og miðstjórnarmaðurinn Ragnar Þór Ingólfsson , hafa sagt sig úr stjórn ASÍ í kjölfar ákvörðunar þess.

SAF segir óskiljanlegt með öllu að forysta ASÍ geti komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtæki sem sjái fram á fullkomið tekjutap um margra mánaða skeið geti uppfyllt launahækkanir á tímum sem þessum, og skora á verkalýðshreyfinguna að breyta afstöðu sinni, því annars stefni í frekari uppsagnir.

„SAF telja því augljóst að afstaða ASÍ muni því miður koma niður á félagsmönnum sambandsins þar sem óhugsandi er að ferðaþjónustufyrirtæki geti nú uppfyllt launahækkanir nema með frekari niðurskurði á launakostnaði, m.a. með enn frekari uppsögnum.“