Samkeppniseftirlitið (SKE) birti í desember greiningu á framlegð á dagvöru-, byggingavöru- og eldsneytismarkaði. Eftirlitið dró ‏þá ályktun að verðlagning og álagning sé há í alþjóðlegum samanburði sem veri upp spurningar hvort nægilegt samkeppnislegt aðhald sé á umræddum mörkuðum.

Samtök atvinnulífsins (SA) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa gert 23 athugasemdir við greiningu SKE. Samtökin segja að greiningin sé haldin ágöllum sem leiði til þess að ályktanir eftirlitsins eigi í ýmsu tilliti ekki við rök að styðjast.

SKE vakti sérstaklega athygli á því að framlegð á dagvörumarkaði í krónum talið hefði hækkað um tæplega 29% á föstu verðlagi á milli áranna 2017 og 2021. Hins vegar hafi framlegðarhlutfall einungis aukist um 0,7 prósentustig á umræddu tímabili.

„Það er því ljóst að lítill sem enginn munur er á hlutfalli framlegðar af rekstrartekjum á þessu fjögurra ára tímabili,“ segir á vef SA.

Samtökin benda á að meðal ástæðna sem geti skýrt aukna framlegð í krónum talið sé fjölgun íbúa landsins og breytt neysluhegðun í Covd-faraldrinum sem færði einkaneyslu íbúa inn fyrir landsteinana, frá veitinga- og gististöðum, og til matvöruverslana í meira mæli en áður.

SA og SVÞ segja ljóst að erfitt sé að draga skýrar ályktanir af þeim gögnum sem birt eru um framlegð fyrirtækja af dagvörusölu í milljörðum króna í skjali SKE. Fremur ætti að beina sjónum að hlutfall framlegðar af rekstrartekjum. Þrátt fyrir það sé breytileiki gagna það mikill að spurning sé hvort nokkurt gagn sé af samanburðinum.

Ekki horft til þróun framlegðar síðustu misseri

Samtökin benda einnig á að framlegð hjá Festi og Högum hafi dregist saman á milli áranna 2021 og 2022. Þrátt fyrir að umrædd fyrirtæki birti ársfjórðungsleg uppgjör taki greining SKE ekki tillit til þróun framlegðar á síðustu misserum.

„Hefði eftirlitið tekið tillit til þessarar þróunar, sem er eðlilegt þar sem spurningin snýr að álagningu nú en ekki í fortíð, má telja næsta víst að ályktanirnar hefðu verið tölvuvert frábrugðnar.“

SA og SVÞ gera einnig „alvarlegar athugasemdir“ við þann alþjóðlega samanburð sem liggur til grundvallar greiningu SKE. Varasamt sé að draga haldbærar ályktanir af alþjóðlegum samanburði þegar Íslandi er slegið saman við mun stærri markaðssvæði með ólíka undirliggjandi eiginleika.

„Reyndar má finna fyrirvara í umræðuskjalinu um að gögn séu e.t.v. ekki að fullu samanburðarhæf. Engu að síður er ein helsta ályktun greiningarinnar sú að álagning dagvörusala sé há hér á landi m.v. samanburðarhópinn.“

Samtökin segja að óþarft sé að tortryggja verðhækkanir í hvívetna eða skella skuldinni á samkeppnisbrest.

„Eðlilegar og gildar ástæður kunna að liggja að baki verðhækkana, sérílagi í árferði eins og því sem geysað hefur undanfarin misseri. Heilbrigð samkeppni er af hinu góða en getur þó ekki læknað öll mein.“