Samtök atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráð Íslands hafa skilað inn umsögnum um fjárlagafrumvarp ársins 2020, sem kynnt var í byrjun síðasta mánaðar. Báðir aðilar fagna fyrirhuguðum skattalækkunum á einstaklinga en benda jafnframt á að sú efnahagsþróun sem spáð sé fyrir um í fjárlögum sé full bjartsýn.

Gagnrýna skattahækkanir á ferðaþjónustuna

SA segir í umsögn sinni að boðaðar skattalækkanir séu fagnaðarefni. Tekjuskattslækkun á einstaklinga og lækkun tryggingargjalds sé verulega jákvæð aðgerð og til þess fallin að milda áhrif niðursveiflunnar, auka ráðstöfunartekjur heimila og fyrirtækja í erfiðu árferði.

Samtökin gagnrýna boðaðar skattahækkanir á ferðaþjónustuna. Það sé óábyrg stefna að hækka skatta á atvinnugrein sem sé enn að glíma við áföll í flugiðnaði og mikil óvissa ríki um þróunina á næstu misserum.

SA segir jafnframt að sú áskorun sem sé framundan sé að leita leiða til umbóta í ríkisrekstri og lækka skatta enn frekar samfara kólnandi hagkerfi. Auka þurfi áherslu á hagræðingu í rekstri og gera hana skilvirkari. Ísland sé að mörgu leyti eftirbátur nágrannaríkja þegar komi að því að straumlínulaga stjórnsýslu og nýta önnur rekstrarform til að auka skilvirkni.

Þá bendir SA á að efnahagsforsendur fjárlagafrum varpsins geri ráð fyrir snörpum viðsnúningi og að hagvöxtur næsta árs verði 2,6%. Byggt á þeim forsendum sé áætlað að afgangur á rekstri ríkissjóðs verði hverfandi á næsta ári og ólíklegt sé að þær forsendur gangi eftir. Stjórnvöld séu skuldbundin að uppfylla afkomuregluna, en hún segi til um að yfir fimm

ára tímabil skuli afkoma hins opinbera ávallt vera jákvæð og árlegur rekstrarhalli megi ekki vera yfir 2,5% af vergri landsframleiðslu. Verði samdráttur meiri en 1% á árinu 2020 þá sé hætta á að afkomureglan verði brotin og grípa þurfi til neyðarráðstafana.

Vilja hraðari og meiri lækkun skatta

Í umsögn VÍ segir að sjaldan hafi verið jafn mikilvægt að stjórnvöld setji samkeppnishæfni í fyrsta sætið. Í því skyni sé hægt að lækka launakostnað, sem sé með því hæsta sem gerist á Íslandi, og lækka tryggingargjald enn meira. Einnig hvetur ráðið til hraðari og meiri lækkunar bankaskatts.

Þá segir VÍ að flest bendi til þess að staðan í efnahagslífinu sé þung um þessar mundir og segja megi að hagkerfið sé í járnum. Vísbendingar séu um að þróunin á næsta ári verði óhagfelldari en frumvarpið geri ráð fyrir. Tekjuskattsbreytingar ættu að stuðla að sátt og fagni Viðskiptaráð öllum skattalækkunum en veki athygli á að skattar á einstaklinga á Íslandi séu þeir næsthæstu meðal OECD ríkja.

Auk þess segir VÍ að grænir skattar til að sporna gegn loftslagsbreytingum ættu að vera tekjuhlutlausir fyrir ríkissjóð þannig að aðrir skattar lækki til mótvægis t.d. svo að áhrif skattana á mengun sé enn meiri.