Rússneski auðkýfingurinn Alisher Usmanov leggur traust sitt á gengishækkun hlutabréfa Apple. Hann keypti nýverið hlutabréf í tæknirisanum fyrir 100 milljónir dala, jafnvirði tæpra 12 milljarða íslenskra króna. Usmanov er fyrrverandi hluthafi í Kaupþingi og lenti nýverið í toppsætinu á lista Sunday Times yfir ríkustu einstaklingana sem búsettir eru í Bretlandi.

Bloomberg-fréttaveitan fjallar um hlutabréfakaup Usmanovs í dag. Þar segir að hann hafi í gegnum fjafestingarsjóðinn DST Group keypt hlutabréf í Facebook árið 2009. Á þeim tíma var samfélagsmiðillinn metinn á 6,5 milljarða dala. Við skráningu fyrirtækisins á hlutabréfamarkað vestanhafs í maí í fyrra nam verðmæti þess hins vegar um 100 milljörðum dala og segir Bloomberg að sjóður Usmanovs hafi selt hlutabréf sín fyrir 1,7 milljarða dala. Hagnaðurinn af viðskiptum hafi numið 1,4 milljörðum dala á um þremur árum, þ.e. tíföld sú upphæð sem hann varði til hlutabréfakaupanna. Bloomberg rifjar upp að þótt Usmanov byggi auð sinn að mestu á fjárfestingum í iðnaði, einna helst í hrávöru, þá hafi hann fjárfest talsvert í tæknifyrirtækjum í Asíu, s.s. í Alibaba í Kína og rússneska netfyrirtækinu Mail.ru Group.

Usmanov bendir á það í samtali við Bloomberg að gengi hlutabréfa Apple hafi lækkað mikið upp á síðkastið - gengishrunið nemur um 40% síðan í september í fyrra - og hafi hann trú á að það muni hækka á næstu þremur árum.