Ekkert fyrirtæki getur þrifist í starfsumhverfi þar sem stýrivextir eru 18% og raunvextir á bilinu 20-30%. Þetta kom fram á fjölmennum fundi stjórnenda í atvinnulífinu á Grand Hótel Reykjavík í morgun.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir að lækka verði stýrivexti strax í 12% og síðan mjög hratt í kjölfarið. Æskilegt sé að þeir stýrivextir verði ekki nema 2-3% yfir því sem gerist á evrusvæðinu innan 12 mánaða. Með 18% stýrivexti sé viðbúið að fjöldi fólks og fyrirtækja lendi í þroti og ekki síður hinir nýju ríkisbankar. Rekstrarform þeirra gangi ekki upp og hið háa vaxtastig geti á endanum leitt til falls þeirra.