*

sunnudagur, 25. október 2020
Innlent 24. september 2020 17:28

SA hótar uppsögn lífskjarasamnings

SA segir forsendur lífskjarasamningsins brostnar. Samningnum kann að vera sagt upp 1. október bregðist verkalýðshreyfingin ekki við.

Ritstjórn
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, við undirritun lífskjarasamninganna í fyrra.
Haraldur Guðjónsson

Samtök atvinnulífsins telja forsendur Lífskjarasamningsins brostnar og að samningsaðilum beri að bregðast við. SA sé heimilt að segja kjarasamningum upp um komandi mánaðamót komi verkalýðshreyfingin ekki til móts við atvinnulífið og aðlagi kjarasamninga að breyttri stöðu efnahagsmála.

SA mun jafnframt boða til allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal aðildarfyrirtækja SA um afstöðu þeirra til uppsagnar kjarasamninga, sem taki gildi þann 1. október 2020. Framkvæmdastjórn SA hefur hins vegar það hlutverk að taka afstöðu til þess hvort kjarasamningar eigi að halda gildi sínu.

Forsendunefnd SA og ASÍ hafði fundað síðustu daga án niðurstöðu. ASÍ gaf út nú fyrir skömmu að það telji forsendur samninganna standast.

SA segir engar forsendur fyrir þeim launahækkunum sem taka eiga gildi samkvæmt samningnum um áramótin. Hagstofan hafi spáð 10,2% samfelldum hagvexti árin 2019-2022 skömmu fyrir gerð samningana. Nú spái Hagstofan 0,8% hagvexti á þessu tímabili. Þá stefni í um 9-10% atvinnuleysi á næstu mánuðum.

SA leggur til þrjár leiðir til að mæta stöðunni:

Frestun launahækkana og lenging kjarasamnings sem henni nemur

  • Bregðast við með því að lengja í kjarasamningum og fresta öllum dagsetningum þeirra sem nemur lengingunni – en að Lífskjarasamningurinn verði að fullu efndur. Árið er farið forgörðum og þessi nálgun rímar vel við aðrar aðgerðir í samfélaginu að atvinnulífið og launafólk bíði storminn af sér í sameiningu.

Tímabundin lækkun á framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði

  • Í aðdraganda launahækkunar 1. maí síðastliðinn fóru fram viðræður við hluta verkalýðshreyfingarinnar um tímabundna lækkun á mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði til að draga úr launakostnaði atvinnurekenda. Um væri að ræða tímabundna ráðstöfun.

Tímabundin frestun endurskoðunar kjarasamninga

  • Meðan ekki liggur fyrir hvort eða hvenær bóluefni gegn COVID-19 sjúkdómnum kemur er ljóst að aðilar taka afdrifamikla ákvörðun á grundvelli mjög ófullkominna upplýsinga, en tilkoma bóluefnis mun gjörbreyta efnahagsforsendum á næsta ári til hins betra. Samkvæmt spám þeirra sem best þekkja til má gera ráð fyrir því að traustari upplýsingar um tímaferil framboðs á bóluefni og bólusetningar liggi fyrir innan fárra mánaða.