*

fimmtudagur, 27. febrúar 2020
Innlent 5. mars 2019 17:24

SA segir löglegt að upplýsa starfsmenn

Atvinnurekendum er ekki bara leyfilegt að upplýsa starfsmenn heldur skylt, um stöðu og horfur í fyrirtækinu.

Ritstjórn
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sem fer með samningsumboðið í kjaradeilum atvinnurekenda og verkalýðsfélaganna.
Haraldur Guðjónsson

Samtök atvinnulífsins svara yfirlýsingum Eflingar um afskipti atvinnurekenda af atkvæðagreiðslum um verkfallsboðun sem Viðskiptablaðið hefur greint frá og segja atvinnurekendum þvert á móti skylt að upplýsa starfsmenn að því er fram kemur á vef samtakanna.

Vísa samtökin til laga um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum og segja þar kveðið á um að skylt sé í fyrirtækjum þar sem að jafnaði starfa a.m.k. 50 starfsmenn, að upplýsa fulltrúa starfsmanna um „horfur í atvinnumálum í fyrirtækinu og um allar ráðstafanir sem fyrirsjáanlegar eru, einkum ef atvinnuöryggi er ógnað", eins fram kemur í 4. grein laga nr. 151/2006.

Ekkert sé því til fyrirstöðu að veita þessar upplýsingar öllum starfsmönnum, kjósi fyrirtæki að gera það. Samtökin árétta þó að atvinnurekendum sé óheimilt að hóta starfsmönnum uppsögn eða öðrum viðurlögum taki þeir þátt í atkvæðagreiðslu um verkfall og árétta að í ljósi kjaradeilunnar sé mikilvægt að atvinnurekendur gæti hófs í yfirlýsingum um hugsanlegar afleiðingar verkfalla og viðri í hvívetna rétt starfsmanna til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.