Samtök atvinnulífsins fagna aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í gær.

„Við teljum þetta skynsamlegar aðgerðir. Þær eru til þess fallnar að milda þá niðursveiflu sem fyrir er séð,”  segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA og forstöðumaður hagdeildar samtakanna.

Ríkisstjórnin tilkynnti í gær að hún ætli að reyna að auka lausafjárstöðu bankanna, liðka fyrir fyrirtækjum í byggingariðnaði og stuðla að því að fólk geti stundað eðlileg fasteignaviðskipti.

Hannes bendir á að aðgerðir til þess að draga úr lausafjárskorti séu nauðsynlegar. Þörf sé á aukinni lausafjárstöðu fjármálastofnana.

Samtökin telja það einnig mikilvægt að Seðlabankinn hefji vaxtalækkunarferlið sem fyrst.

„Nú er tími til þess að blása til sóknar. Ef ekkert er að gert munum við horfa fram á enn meiri niðursveiflu og röð gjaldþrota,” Segir Hannes.

Það er eindregin skoðun Samtaka atvinnulífsins að styrkja beri orkuiðnað í landinu. Í því samhengi bendir Hannes á virkjun Þjórsár. Nauðsynlegt sé að ráðast í virkjun á neðri hluta Þjórsár svo hægt sé að efla iðnað og framleiðslu. Fyrirhuguð netþjónabú og hátækniiðnaður kallar á orku.