*

miðvikudagur, 28. október 2020
Innlent 29. september 2020 14:55

SA segja ekki upp Lífskjarasamningnum

Samtök Atvinnulífsins munu ekki kjósa um uppsögn samningsins samkvæmt samhljóma ákvörðun framkvæmdastjórnar.

Ritstjórn
Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA við undirritun Lífskjarasamninganna svokölluðu í fyrra.
Haraldur Guðjónsson

Samtök Atvinnulífsins munu ekki segja upp Lífskjarasamningunum. Í tilkynningu frá samtökunum kemur fram að nýkynntar aðgerðir stjórnvalda muni milda áhrif þeirra 40-45 milljarða króna sem kjarasamningsbundnar launahækkanir næstu áramót munu kosta atvinnulífið.

Hækkanirnar muni eftir sem áður veikja stöðu atvinnulífsins, og mörg fyrirtæki þurfa að bregðast við. Framkvæmdastjórn samtakanna telji sættir á vinnumarkaði mikilvægar, en þær verði ekki keyptar á hvaða verði sem er.

Verkalýðsforystan hafi ekki verið tilbúin til viðræðna um aðgerðir til að bregðast við forsendubresti í atvinnulífinu, heldur hafi öllum hugmyndum SA verið hafnað umræðulaust.

Sú staða hafi þvingað samtökin til að leita samstarfs við stjórnvöld um „mótun sameiginlegra viðbragða við gerbreyttri stöðu atvinnulífsins frá því þegar Lífskjarasamningurinn var undirritaður“.

það sé samhljóða ákvörðun framkvæmdastjórnar að Lífskjarasamningurinn gildi áfram, og því verði ekki greidd atkvæði um uppsögn hans innan samtakanna.

Stikkorð: SA lífskjarasamningar