Nú þegar erlendir lánamarkaðir eru lokaðir íslenskum orkufyrirtækjum og erlent áhættufé beinlínis forsenda þess að ráðist sé í orkuframkvæmdir eru slík viðhorf bæði úrelt og skaðleg fyrir það uppbyggingarstarf sem þarf að eiga sér stað. Enginn hefur enda mótmælt því að erlendir aðilar bæði eigi og reki olíuborpalla komi til þess að slíkar orkulindir finnist á íslensku yfirráðasvæði.

Þetta kemur fram í umfjöllun á vef Samtaka atvinnulífsins (SA) um Magma málið svokallaða.

Sem kunnugt er hefur kanadíska fyrirtækið Magma nú eignast nánast allt hlutafé í HS Orku. SA segir að erlendir fjárfestar hafi hingað til fengið arð af orkulindum Íslendinga í formi vaxta af lánum sem tekin hafa verið til byggingar virkjana en þau viðhorf eru útbreidd að óæskilegt sé að erlendir aðilar fái arð af áhættufé í orkuvinnslunni.


„Hver nefnd stjórnvalda á fætur annarri hefur komist að því að fjárfestingin í HS Orku hafi að öllu verið samkvæmt lögum,“ segir í umfjöllun SA.

„Ekki er um það að ræða að HS Orka eigi orkulindirnar, þær eru eftir sem áður í eigu sveitarfélagana sem fá í sinn hlut árlegt umsamið gjald fyrir nýtinguna. Það er þess vegna stórundarlegt svo ekki sé nú dýpra í árina tekið að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar skuli á tröppum Stjórnarráðsins taka undir með þeim sem kyrja vögguvísur yfir atvinnulífinu og erlendri fjárfestingu. Skorti ríkisstjórnina skilning á því að velferðarsamfélag að norrænni fyrirmynd verður einungis til með öflugu atvinnulífi í opnu hagkerfi, þar sem greitt er fyrir fjárfestingum innanlands með öllum tiltækum ráðum, er fyrst ástæða til að hafa áhyggjur af framtíðinni.“

Sjá umfjöllun SA í heild sinni