Samtök atvinnulífsins vilja stíga þrjú ár aftur í tímann hvað varðar skattaumhverfi á Íslandi. Samtökin telja skattabreytingar ríkisstjórnarinnar á síðustu þremur árum hafa verið til þess fallnar að draga úr fjárfestingum og vilja til þátttöku í atvinnurekstri í landinu. „Skattkerfið var einfalt og samkeppnishæft,“ segir í skýrslunni um skattkerfið 2008. Í nýrri skýrslu sem samtökin kynna í dag er farið hörðum orðum um sitjandi ríkisstjórn.

Stjórnvöld virða ekki reglur OECD

Samtökin segja meðal annars að lítill undirbúningur frumvarpa hafi einkennt skattabreytingar auk þess sem ekkert samráð hafi verið haft við atvinnulífið og fyrirtæki hafi haft of skamman tíma til að búa sig undir breytingar á lögum. Til samanburðar segir að þetta sé öfugt við það sem tíðkist í nágrannalöndum okkar. Þá eru í skýrslunni leiddar að því líkur að stjórnvöld virði með vinnubrögðum sínum ekki reglur OECD þar sem lögð er áhersla á að aðildarríki vinni að umbótum á lögum og reglugerðum með það að markmið að bæta efnahagsárangur og auka aðlögunarhæfni. Íslensk stjórnvöld hafi skuldbundið sig til að fylgja tilmælum OECD varðandi þetta en hafi þó ekki fylgt reglum eftir, svo sem ákvæðum um að efnahagslegt og félagslegt mat skuli ávallt fara fram á áhrifum laga og reglugerða.

Samtök atvinnulífsins birta því í dag tillögur um að skattabreytingar gangi til baka í áföngum á næstu fjórum árum. Með því segja samtökin að hægt verði að bæta samkeppnishæfni atvinnulífsins, örva fjárfestingar, atvinnusköpun og þar með hagvöxt. Tekjutapi ríkissjóðs af slíkum aðgerðum leggja þau til að verði mætt með endurbótum á skattstofnum sem best eru til þess fallnir að afla ríkissjóði tekna.