Samtök atvinnulífsins (SA) segja Skipulagsstofnun í fjölmörgum dæmum hafa að því er virðist farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt á undanförnum misserum. Þetta kemur fram í frétt á vef SA.

Þar segir að í fjölda tilvika hafi Skipulagsstofnun lagt fram skoðun sína á umhverfisáhrifum framkvæmda í stað þess að leggja áherslu á að meta hvort matsskýrsla á umhverfisáhrifum framkvæmdanna sé fullnægjandi. „Það er lögbundið hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum frá 2005 og var það m.a. undirstrikað af umhverfisnefnd Alþingis að það væri ekki hlutverk Skipulagsstofnunar að meta hvort rétt væri að ráðast í tilteknar framkvæmdir eða ekki - hlutverk stofnunarinnar væri að leggja mat á hvort sá sem veitir leyfi fyrir tiltekinni framkvæmd sé upplýstur um umhverfisáhrif hennar og athugasemdir almennings þegar afstaða til framkvæmdaleyfis er tekin. Nauðsynlegt er að umhverfisráðuneytið tryggi að stofnunin starfi eftir þeim lögum sem um hana gilda,“ segir á vef SA.

Á vef SA eru einnig tíunduð fjölmörg dæmi þar sem Skipulagsstofnun hefur að mati SA farið út fyrir hlutverk sitt.

Frétt SA.