Á fundi stjórnar Samtaka atvinnulífsins í gær var samþykkt samhljóða að ríkisstjórnin hafi bæði með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi á þeim níu mánuðum sem liðnir eru frá undirritun stöðugleikasáttmálans vísað SA  frá sáttmálanum eins og segir í yfirlýsingu SA. Þar segir að verulegur brestur hafi orðið af hálfu ríkisstjórnarinnar við efndir fyrirheita sáttmálans. Skattar hafi verið hækkaðir umfram það sem gert var ráð fyrir og ýmsar aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu hafi ekki gengið eftir.

Í tilkynningu SA segir að ítrekað hefur verið unnið gegn nýjum verkefnum á sviði orkuvinnslu og -nýtingar. Þar nefna þeir drátt á staðfestingu umhverfismats suðvesturlínu, höfnun á skipulagi hreppa við Neðri- Þjórsá, óraunhæfar hugmyndir um skattheimtu á orkufrekan iðnað, langdregna óvissu um heimild til erlends eignarhalds á HS Orku og fráhvarf samstarfs við Alcoa um uppbyggingu við Bakka.  Stór verkefni til atvinnusköpunar á borð við einkarekin sjúkrahús hafa mætt andstöðu ríkisstjórnarinnar segir í tilkynningu.