Síðastliðinn föstudag lögðu Samtök atvinnulífsins fram skriflega tillögu gagnvart Flóabandalaginu og VR um tilteknar breytingar á vinnutímaákvæðum kjarasamninga og hækkanir launa og launataxta gegn þeim breytingum. Tillögur SA voru settar fram í þeirri von um að koma að einhverju leyti til móts við miklar kröfur verkalýðsfélaganna um launahækkanir í yfirstandandi samningalotu. Þetta kemur fram í tilkynningu Samtaka atvinnulífsins.

Yfirlýsing frá Flóabandalagsins, VR og LÍV í dag sagði að SA hafi stundað rangfærslur og að margt launafólk fengi lítið sem ekkert út úr tilboðinu.

SA er ekki á sama máli og segja að sú staðhæfing eigi sér enga stoð. Í fréttatilkynningu SA segir að tillögur þeirra eigi sér norrænar fyrirmyndir og ef þær gengju eftir yrði samanburður á vinnutíma, tímakaupi og grunnlaunum eðlilegri og sambærilegri en nú er.

„Tilboð SA kemur þeim tekjulægstu betur en öðrum og hefur þann eiginleika að draga úr kynbundnum launamun. Yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna aðildarfélaga ASÍ fengju umtalsverðan ávinning með umræddum breytingum,“ segir í tilkynningu frá SA.