Samtök Atvinnulífsins (SA) hafa birt nýja frétt á vef sínum þar sem þau segja að ef staðið yrði við öll fyrirheit geti árleg útgjöld vaxið um 32 milljarða króna til frambúðar en fjárfestingar og einskiptisgjöld geti numið allt að 55 milljörðum að meðaltali yfir kjörtímabil ríkisstjórnarinnar. Þar af séu 25 milljarðar á ári út kjörtímabilið í fjárfestingar í innviðum ef litið sé til stjórnarsáttmálans og yfirlýsinga í aðdraganda kosninga.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið að hann áttaði sig ekki á því hvernig SA kæmist að þeirri niðurstöðu að varanleg útgjaldaaukning í samgöngum, fjarskiptum og byggðamálum næmi 42,2 milljörðum. Í frétt SA segir að öllum sé það ljóst að sú útgjaldaaukning sé fjárfesting en ekki viðvarandi aukning ríkisútgjalda. Samtökin hafi hins vegar kallað eftir því í lengri tíma að á toppi hagsveiflunnar sé aðhald sýnt í rekstri ríkisins og forgangsraðað í þágu niðurgreiðslu skulda.

Í frétt Viðskiptablaðsins í gær var haft eftir Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra SA, að hann sakni þess að ekki sé minnst einu orði á lækkun skulda í sáttmálanum.

Í fréttinni segir jafnframt að þótt vel hafi gengið á þessu ári og tekjur ríkissjóðs reynst meiri en ætlað var þá sé ástæða til að hafa áhyggjur af því að útgjaldaaukning ríkisins ýti undir þenslu, að launaskrið aukist og að erfitt reynist að halda aftur af launakröfum og hækkunum á vinnumarkaði bæði hjá hinu opinbera og á almenna vinnumarkaðnum.

„Enginn vafi er á að þörf er á fjárfestingu víða. Augljóst er þó að ekki verður hafist handa við öll verkefnin á sama tíma og að þau munu ekki öll standa yfir allt kjörtímabilið. En SA leggja áherslu á að mikilvægt er að ganga hægt um gleðinnar dyr og hafa borð fyrir báru. SA hafa varað við miklum útgjaldavexti í núgildandi fjármálaáætlun og ítrekað nauðsyn þess að greiða niður skuldir, lækka vaxtakostnað ríkissjóðs og búa í haginn til að geta tekist á við tímabil þegar þrengir að,“ segir á vef SA.