Samtök atvinnulífsins vilja gera kjarasamninga til þriggja ára. Þetta ítrekuðu samtökin blaðamannafundi sem haldinn var um klukkann 11 í dag.

Í yfirlýsingu SA segir að í nýjum drögum að yfirlýsingar ríkisstjórnar, sem voru lögð fram í gærkvöldi, sé komið að nokkru til móts við sjónarmið samtakanna um auknar framkvæmdir í hagkerfinu, auk þess sem sett er fram ákveðin bókun um meðferð frumvarpsins um sjávarútvegsmál.

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra sendu ríkissáttarsemjara lokaútgáfu yfirlýsingar ríkisstjórnar í gær, að því er greint var frá í fréttatilkynningu frá forsætisráðherra í gærkvöldi. Þeim fylgdi einnig sérstök bókum um málsmeðferð vegna væntanlegs frumvarps ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Vilmundur Jósefsson, formaður SA, sagði á blaðamannafundinum í dag að hann vonist til að viðsemjendur þeirra sjái ljósið í þessu útspili samtakanna.

„Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að skapa fyrirtækjum landsins starfsöryggi og frið og hafa því ákveðið að láta reyna á vilja ASÍ og landssambandanna til að ljúka gerð þriggja ára kjarasamnings með aðfarasamningi til 15. júní nk.," segir í yfirlýsingu.