Sjö starfsmenn föllnu bankanna eru á lista yfir tíu tekjuhæstu einstaklingana árið 2017 samkvæmt álagningarskrám ríkisskattstjóra. Þetta kemur fram í tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í morgun.

Stjórnendur Glitnis HoldCo, gamla Glitnis, og LBI, gamla Landsbankans, fengu háar bónusgreiðslur á síðasta ári fyrir störf sín fyrir félögin.

Þannig samsvöruðu tekjur þeirra Tom Gröndahl og Steen Parsholt, sem sátu í stjórn Glitnis, að jafnaði 56 milljón króna á mánuði. Þá eru Ingólfur Hauksson, framkvæmdastjóri Glitnis, og Snorri Viðar Arnarsson og Ragnar Björgvinsson, lykilstarfsmenn bankans einnig á listanum. Auk þes er Richard Katz, stjórnarformaður LBI og Ársæll Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LBI á meðal tíu tekjuhæstu.

Þeir einu sem komast á topp tíu listann en eru ekki starfsmenn föllnu bankanna eru Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa og Valur Ragnarsson, forstjóri Medis.

Tekjuhæstu einstaklingarnir árið 2017

  1. Tom Gröndahl, stjórn Glitnir HoldCo. 55.978
  2. Steen Parsholt, stjórn Glitnir HoldCo. 55.978
  3. Richard Katz, stjórn LBI. 32.730
  4. Vilhelm Róbert Wessman, forstjóri Alvogen 25.815
  5. Ingólfur Hauksson, framkvæmdastjóri Glitnir HoldCo. 19.237
  6. Ársæll Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LBI 17.892
  7. Snorri Arnar Viðarsson, eignastýring Glitnir HoldCo. 16.765
  8. Ragnar Björgvinsson, yfirlögfræðingur Glitnir HoldCo. 16.105
  9. Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa 15.096
  10. Valur Ragnarsson, forstj. Medis 14.882

Útreikningar Frjálsrar verslunar byggja á útsvarsskyldum tekjur á árinu 2017 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna starfa á fyrri ára. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði.