Samtök atvinnulífsins (SA) fagna ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna yfirtöku Arion banka á BM Vallá. Í tilkynningu frá SA segir að Samkeppniseftirlit hafi sett skýr viðmið um hvernig yfirtöku banka á fyrirtækjum skuli háttað þannig að endurskipulagning þeirra geti tekist vel án þess að raska samkeppni.

Meðal þess sem ákvörðun Samkeppniseftirlits kveður á um er að Arion banki selji fyrirtækið eins fljótt og auðið er. Einnig er bankanum gert að tryggja að fyrirtækið starfi óháð bankanum og að gerð verði eðlileg arðsemiskrafa til BM Vallár.

Þá er aðkoma starfsmanna Arion banka að rekstri BM Vallár takmörkuð.

SA segja að virk samkeppni sé ætíð mikilvæg og ekki síður þegar þjóðir kljást við efnahagsleg áföll.

„Aðgerðir stjórnvalda og markaðshegðun fyrirtækja, sem takmarka eða raska samkeppni, tefja endurreisn og draga efnahagslægðina á langinn. Umhverfi samkeppnismála og samkeppniseftirlits er hins vegar krefjandi á Íslandi vegna smæðar markaðarins og þörf á því að fyrirtæki nái lágmarksstærð til að njóta rekstrarhagkvæmni. Fákeppni er því óhjákvæmileg á mörgum sviðum en við slíkar aðstæður er skilvirkt samkeppniseftirlit mikilvægt sem getur fyrirbyggt ólögmæta samtryggingu á markaðnum og að markaðsráðandi fyrirtæki misnoti sterka stöðu sína,“ segir í frétt SA.