Samtök atvinnulífsins eru reiðubúin til viðræðu við Alþýðusambandið og landssambönd þess um að stytta samningstímann í gildandi kjarasamningum frá 5. maí 2011 til 31. des 2013. Í frétt á vefsíðu samtakanna segir að SA telji í því samhengi nauðsynlegt að samningsaðilar hefji nú þegar vinnu vegna næstu kjarasamninga.

Í fréttinni segir að meginforsenda kjarasamninganna um kaupmátt launa hafi staðist. „Aðrar forsendur hafa brostið gagnvart báðum samningsaðilum. Gengi krónunnar er mun lægra og verðbólga meiri en miðað var við. Fjárfestingar í atvinnulífinu hafa ekki aukist eins og að var stefnt og erlent fjármagn því ekki streymt til landsins sem hefði stuðlað að hærra gengi og minni verðbólgu. Ekki hefur verið staðið við lækkun tryggingagjalds til samræmis við minni kostnað af atvinnuleysi. Atvinnulífið er því illa í stakk búið til að taka á sig þær miklu launahækkanir sem eru framundan.“

Þrátt fyrir þessa stöðu telja Samtök atvinnulífsins engum í hag að opna kjarasamninga nú en vilja þess í stað hefja undirbúning að því að skapa skilyrði fyrir bættan hag fyrirtækja og starfsfólks í framtíðinni.

Að lokum segir á vefsíðu SA að samtökin og ASÍ þurfi að koma að sameiginlegu borði með aðilum opinbera vinnumarkaðarins og setja sér markmið um að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga. „Horfa þarf til þess hvernig staðið er að málum í nágrannaríkjum okkar sem tekst að tryggja raunverulega kaupmáttaraukningu samfara lágri verðbólgu. Stefna þarf að því að sameiginleg sýn allra aðila vinnumarkaðarins á svigrúm atvinnulífsins og samfélagsins til lífskjarabata næstu árin liggi fyrir í byrjun sumars og verði mótandi í nýrri lotu kjarasamninga næsta haust.“