Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, kynnti Atvinnuleiðina á opnum fundi Samtaka Atvinnulífsins í morgun. Hann sagði gerð langtímakjarasamninga til þriggja ára meginstoð stöðugleika og algjört lykilatriði.

VIlhjálmur gagnrýndi stjórnvöld og sagði að samstarf hafi byrjað vel með gerð stöðugleikasáttmálans.Síðan þá hafi hvert álitamálið komið upp á eftir öðru og traust minnkað. Hann gagnrýndi sjávarútvegsstefnu stjórnvalda og sagði ótækt hvernig stjórnarliðar tala opinberlega.

Atvinna eða verðbólga

Þá lagði Vilhjálmur áherslu á að efla atvinnusköpun og útflutning. Til að svo sé hægt þurfi að bæta skilyrði fyrir fjárfestingar hérlendis. SA telja hin leiðin feli í sér að sterkari verkalýðsfélög knýja fram launahækkanir um tugi prósenta. Það leiði til verkfalla, kaupmáttarrýrnunar og verðbólgu. Þá leið þekki allir.

Vegna þessa, sagði Vilhjálmur, vilja samtökin hækka laun um 7-8% á næstu þremur árum og benti á að það sé hærra en gengur og gerist í nágrannalöndum. Meginbót felist þó í því að atvinnuleysi minnki sem auki kaupmátt.