Lofsverður árangur hefur náðst í mörgum kjarasamningum undanfarin og stærstur hluti þeirra rúmast innan forsendna verðstöðugleika, að mati Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra SA. Í grein sem birtist eftir hann á vefsíðu SA, segir hann að vegferðin hafi ekki verið áfallalaus og að því miður hafi sumir hópar, sem gert hafi meiri kröfur, haft erindi sem erfiði. Nefnir hann sérstaklega BHM og KÍ auk ýmissa stékka sem tengjast flugsamgöngum.

„Ljóst er að launahækkanir þær sem BHM sótti til handa félagsmönnum sínum eru umtalsvert meiri en í samningum á almennum vinnumarkaði. Sama gildir um kjarasamninga framhalds- og grunnskólakennara, en þar á móti vega umtalsverðar breytingar á samningum sem gera skólayfirvöldum kleift að fara í löngu tímabærar skipulagsbreytingar innan skólanna. Kennarasamningarnir eru því ekki samanburðarhæfir við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði,“ segir í grein Þorsteins.

„Miðstjórn ASÍ hefur lýst því yfir að fyrrgreind tilraun til aukins efnahagslegs stöðugleika á grundvelli hóflegra launahækkana hafi mistekist vegna samninga BHM og kennara. Markmið næstu samningalotu verði því að krefjast sérstakra leiðréttinga á grundvelli samninga BHM og KÍ. Nái slíkar kröfur fram að ganga er fullkomlega öruggt að hrint verður af stað bylgju víxlverkandi launahækkana, verðbólgu og gengislækkana. Þar með væri ótvíræðum árangri gildandi kjarasamninga kastað á glæ.“